Viljayfirlýsing um sameiningu Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga og ALVÍB

Stjórnir Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga og ALVÍB hafa undirritað viljayfirlýsingu um að stefna að sameiningu sjóðanna frá næstu áramótum. Með sameiningunni er stefnt að stofnun öflugs lífeyrissjóðs sem setur sér háleit markmið um ávöxtun, lágmarkskostnað og þjónustu við sjóðfélaga. Sameinaður lífeyrissjóður Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga og ALVÍB verður 10. stærsti lífeyrissjóðurinn með um 18 þúsund sjóðfélaga og heildareignir um 19 milljarða en 4. stærsti sé miðað við árleg iðgjöld.



Viljayfirlýsingin byggir á samkomulagi um eftirfarandi atriði.


Með sameiningu er stefnt að 10% lækkun rekstrarkostnaðar.


Sameinaður lífeyrissjóður fær nýtt nafn.


Aðild að lífeyrissjóðnum verður opin fyrir alla og er hann jafnframt starfsgreinasjóður fyrir arkitekta, leiðsögumenn, tónlistarmenn og tæknifræðinga.


Stjórn lífeyrissjóðsins verður skipuð sex sjóðfélögum og verða fjórir kosnir af sjóðfélögum á ársfundi en Íslandsbanki tilnefnir tvo.


Atkvæðisréttur á ársfundi fer eftir inneign en atkvæði verða jöfnuð með því að tryggja þeim sem minnst eiga lágmarksatkvæðisrétt auk þess að skilgreina hámarksatkvæðisrétt.


Sjóðfélagar geta valið á milli fjögurra verðbréfasafna (Ævisöfn I, II, III og IV) með mismunandi ávöxtun og áhættu. Sjóðfélagar geta einnig valið Ævileiðina en þá flyst inneign milli safnanna eftir aldri.


Lán til sjóðfélaga eru verðtryggð og vextir taka mið af lægstu vöxtum sem Seðlabankinn auglýsir hverju sinni að viðbættu vaxtaálagi/afslætti sem stjórn sjóðsins ákveður, nú -0,5 prósentustig.

Til þess að staðfesta sameininguna þarf samþykki sjóðfélagafunda sem verða haldnir í nóvember Aukaársfundur Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga verður haldinn þriðjudaginn 26. nóvember á Grand Hótel og sjóðfélagafundur ALVÍB fimmtudaginn 28. nóvember á sama stað.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga og ALVÍB.