Eignir lífeyrissjóðanna námu um 896 milljörðum króna í júnílok á þessu ári og höfðu aukist um 10,8% frá áramótum. Í fyrra nam aukningin 21,4%, sem samsvarar 18,2% raunaukningu miðað við vísitölu neysluverðs.
Þessar upplýsingar koma fram í gögnum Seðlabanka Íslands, en þar er einnig greint frá því að að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafi numið um 189 milljörðum króna í júnílok, sem er um 21,15% af heildareignum sjóðanna. Sambærilegt hlutfall erlendra eigna nam um 19% í árslok 2003.
Af eignaflokkum lífeyrissjóðanna er mest aukningin í markaðsverðbréfum fjárfestingasjóða (um 25 ma. kr.); í hlutabréfasjóðum (22 ma. kr.) og í hlutabréfum (25 ma. kr.). Sjóðfélagalán námu alls um 94 ma. kr. í júnílok eða um 10,5% af heildareignum sjóðanna og höfðu aukist um 3,8% á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Tölur Seðlabankans byggja á áætlun 25 stærstu lífeyrissjóðanna.