Viðskipti með erlend verðbréf ekki minni en síðan 1996.

Fyrstu 11 mánuði síðasta árs námu nettókaup með erlend verðbréf aðeins 5.468 m.kr. en voru 41.393 m.kr. fyrstu 11 mánuði ársins 2000. Hliðstæðar tölur síðustu ára eru þessar m.v. 11 mánuði: 25.742 m.kr.(1999) 18.145 m.kr.(1998) 14.032 m.kr. (1997) 2.247 m.kr.(1996).

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að sala erlendra verðbréfa umfram kaup nam 219 m. kr. í nóvember en til samanburðar voru nettókaup um 2.842 m. kr. í sama mánuði árið 2000. Neikvæð verðbréfaviðskipti við útlönd voru síðast í októbermánuði en athygli vekur að viðskiptin hafa fjórum sinnum verið neikvæð það sem af er árinu 2001. Til samanburðar má geta þess að á tímabilinu nóv.1996-nóv. 2000 voru viðskiptin einungis neikvæð í nóvember 1996. Þróun einstakra undirliða í október var eftirfarandi: Hrein sala á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum nam um 807 m.kr. en á sama tíma árið 2000 voru nettókaup um 2,7 ma. kr. Hrein kaup á erlendum hlutabréfum námu um 316 m.kr. en voru á sama tíma í fyrra um 943 m. kr. Hrein kaup á erlendum skuldabréfum námu um 262 m.kr. Á sama tíma í fyrra var hrein sala um 797 m.kr. Hrein kaup á öðrum verðbréfum gefnum út erlendis nam um 11 m.kr. en sala umfram kaup var á sama tíma í fyrra 2 m.kr. Helstu hlutabréfavísitölur í heiminum hækkuðu í nóvembermánuði og þannig hækkaði Standard and Poor 500 vísitalan um 7,5%, Dow Jones um 8,6% og Nasdaq um 14,2%. Fróðlegt verður að sjá hvort þessar hækkanir hafi stuðlað að meiri nettókaupum innlendra aðila með erlend verðbréf í desember.


Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands