Viðskiptaráðherra skipar nefnd um lánveitingar einstaklinga.

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, hefur nýlega skipað nefnd sem hefur það hlutverk að leggja drög að samkomulagi um lánveitingar einstaklinga, t.d. um greiðslumat, upplýsingaskyldu, skilmálabreytingar, ábyrgðarmenn o.f. Nefndin skal skila drögum að samkomulagi fyrir lok mars á næsta ári.

S.l. vor skilaði áliti sínu nefnd viðskiptaráðherra um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtæki. Í niðurstöðu sinni leggur nefndin til að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga verði útvíkkað svo það nái til fleiri þátta lánveitinga en núverandi samkomulag gerir ráð fyrir og jafnframt að fleiri en fjármálafyrirtæki verði aðilar að því, s.s. lífeyrissjóðirnir, vátryggingafélögin, Íbúðalánasjóður og Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Í hinni nýju nefnd viðskiptaráðherra, sem skal m.a. hafa framangreinda skýrslu til hliðsjónar eiga sæti:

Haraldur Örn Ólafsson, viðskiptaráðuneyti, formaður, Guðjón Rúnarsson, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Einar Jónsson, Íbúðalánasjóði Hrafn Magnússon, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íris Ösp Ingjaldsdóttir og Ólöf Embla Einarsdóttir, Neytendasamtökunum, Sigmar Ármannsson, Sambandi íslenska tryggingafélaga og Steingrímur Ari Arason, Lánasjóði íslenskra námsmanna.