Landssamtök lífeyrissjóða hafa skipað aðgerðarhóp sem hefur það hlutverk að ræða við stjórnvöld um mögulegt hlutverk lífeyrissjóða landsmanna í uppbyggingu samfélagisins eftir hrun fjármálakerfisins. Í aðgerðarhópnum eiga sæti fulltrúar stærstu lífeyrissjóðanna og formaður og framkvæmastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Gert er ráð fyrir að viðræður við stjórnvöld hefjist fljótlega.
Forystusveit lífeyrisjóðakerfisins hefur brugðist jákvætt við ósk ríkisstjórnarinnar um að ræða frekar þann möguleika að lífeyrissjóðir láni hluta af ráðstöfunarfé sínu til ýmissa framkvæmda og stuðli þannig aukinni atvinnu og auknum umsvifum í samfélaginu. Viljayfirlýsing um viðræður liggur sem sagt fyrir af hálfu lífeyrissjóðanna en efnisleg niðurstaða ræðst að sjálfsögðu í viðræðum við stjórnvöld.
Fulltrúar lífeyrissjóða munu að sjálfsögðu horfa í viðræðunum til meginhlutverk og skyldu sjóðanna gagnvart sjóðfélögum sínum og til arðsemi og áhættu í fjárfestingarverkefna. Þessa stöðu mála ber að undirstrika mjög skýrt, því í opinberri umræðu er oft fjallað um málið á þá vegu að nú þegar liggi nánast fyrir hvernig haga verði aðkomu lífeyrissjóðanna í endurreisnarstarfinu.
Það liggur sem sagt annars vegar fyrir hjá lífeyrissjóðunum að ræða við stjórnvöld en hins vegar að ræða og ákveða í eigin hópi hvernig staðið skuli að stofnun sérstaks fjárfestingarfélags til að leggja í fjármuni og nota til endurreisnarstarfsins eftir reglum sem settar verða þar að lútandi. Talað hefur verið um að lífeyrissjóðir legðu í þennan sjóð allt að 75 milljarða króna næstu þrjú árin en niðurstaðan gæti hugsanlega orðið lægri tala, en slíkt fer m.a. eftir undirtektum einstakra lífeyrissjóða.
Uppgjöri við skilanefndir bankanna enn ólokið
Vert er svo að halda því til haga að forráðamenn lífeyrissjóða munu hér eftir sem hingað til ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd, þegar þeir ganga að samningaborði með stjórnvöldum, að samkomulag hefur enn ekki tekist um uppgjör lífeyrissjóða við skilanefndir viðskiptabankanna þriggja. Þar er annars vegar átt við gjaldmiðlavarnasamninga við bankana sem fóru á hliðina síðastliðið haust og hins vegar til skuldabréfa sem sjóðirnir áttu hjá sömu bönkum. Gjaldeyrisvarnasamningum var ætlað að að draga úr sveiflum á erlendum eignum lífeyrissjóðanna og þegar bankarnir fóru á hliðina voru samningar alls fimmtán sjóða komnir í neikvæða stöðu. Allt frá því í október á síðasta ári hafa staðið yfir þreifingar og viðræður um gagnkvæmt uppgjör lífeyrissjóða og skilanefnda bankanna, en ekki hefur tekist enn að ljúka þeim viðræðum með ásættanlegri lausn fyrir lífeyrissjóðina.