Viðræðunefndir skipaðar um fjármögnun verklegra framkvæmda.

Ríkisstjórnin hefur skipað sérstaka viðræðunefnd til að ræða við fulltrúa lífeyrissjóða um fjármögnun ýmissa framkvæmda sem eru eða kunna að vera framundan á næstu árum, að því er segir í frétt fjármálaráðuneytisins. Landssamtök lífeyrissjóða hafa jafnframt skipað níu manna aðgerðahóp sem tekur þátt í viðræðunum.

Af hálfu stjórnvalda hafa eftirtaldir aðilar verið skipaðir í viðræðunefndina: Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður, skipuð án tilnefningar, Ingimar Jóhannsson, skrifstofustjóri, skv. tilnefningu sjávar- og landbúnaðarráðherra, Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri, skv. tilnefningu iðnaðarráðherra, Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, skv. tilnefningu samgönguráðherra, Skúli Helgason, alþingismaður skv. tilnefningu forsætisráðherra, og Vilborg Hauksdóttir, sviðsstjóri, skv. tilnefningu heilbrigðisráðherra. Formaður nefndarinnar er Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu.

Aðgerðarhópur lífeyrissjóðanna er þannig skipaður: Arnar Sigurmundsson, formaður LL, sem jafnframt er formaður hópsins, Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, Eiríkur Jónsson, stjórnarformaður í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Guðmundur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Helgi Magnússon, vararformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri LL, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs og Þorbjörn Guðmundsson, varaformaður stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins.