Í fréttum fjölmiðla að undanförnu er svo að skilja að viðbótarlífeyrissparnaður geti haft í för með sér skerðingu á grunnlífeyri almannatrygginga. Svo er alls ekki og samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins eru greiðslur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar meðhöndlaðar með sama hætti og greiðslur úr lífeyrissjóðum við útreikning bóta. Þetta þýðir í raun að greiðslur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skerða ekki grunnlífeyri almannatrygginga.
Það er skoðun Landssamtaka lífeyrissjóða að frjáls viðbótarlífeyrissparnaður sé hagkvæmasta sparnaðarform almennings sem völ er á. Auk viðbótarframlags frá launagreiðanda, sem getur numið allt að 2% af launum, er ekki greiddur af honum fjármagnstekjuskattur vegna þeirra vaxta sem menn ávinna sér á sparnaðartímanum og ekki er greiddur af sparnaðinum erfðarfjárskattur vegna andláts. Vegna einstaklingsbundinna aðstæðna kann hins vegar að vera hagkvæmt að innleysa lífeyrissparnaðinn áður en 67 ára aldri er náð og flytja hann í annað sparnaðarform. Í ráðgjöf lífeyrissjóðanna er m.a. bent á það atriði.
Allt tal um að viðbótarlífeyrissparnaður geti haft í för með sér skerðingu á grunnlífeyri almannatrygginga ber að skoða í því ljósi, að Tryggingastofnun ríkisins hefur ávallt meðhöndlað frjálsan lífeyrissparnaðað með sama hætti og greiðslur frá lífeyrissjóðum. Það hefur alltaf verið ætlun stjórnvalda að meðhöndla séreignarsparnaðinn með sama hætti og greiðslur frá lífeyrissjóðum m.a. gagnvart bótum almannatrygginga og er Landssamtökum lífeyrissjóða ekki kunnugt um annað en að svo verði áfram um ókomna framtíð.