Viðbótarlífeyris- sparnaður er hagstæðasta sparnaðarleiðin.

Mótframlag launagreiðanda og ríkisins og skattfrestun við innborgun gerir það að verkum að enginn annar sparnaður stenst samanburð við viðbótarlífeyrissparnað. Mótmælt er því þeim ummælum í fjölmiðlum að viðbótarlífeyrissparnaður sé viðsjárverður kostur.

Viðbótarlífeyrissparnaður er sparnaðartækifæri sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nú greitt allt að 4% af heildarlaunum sínum í viðbótarlífeyrissparnað áður en skattur er reiknaður á laun og fá þá að auki allt að 0,4% mótframlag frá ríkinu. Í nýjum kjarasamningum er ákvæði um stighækkandi framlag launagreiðenda á næstu árum í viðbótarlífeyrissparnað launþega allt að 2% af launum sem þýðir að þeir sem spara 2% af launum fá 2,2% í mótframlag og þeir sem spara 4% af launum fá 2,4% í mótframlag frá launagreiðanda og ríkinu. Mótframlag launagreiðanda og ríkisins og skattfrestun við innborgun gerir það að verkum að enginn annar sparnaður stenst samanburð við viðbótarlífeyrissparnað. Þá þarf ekki að greiða eignaskatt af inneigninni og ekki heldur fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum. Inneignin er ekki framtalsskyld og hefur því ekki áhrif á lækkun vaxtabóta eða barnabóta. Í neðangreindu dæmi er gert ráð fyrir 2% framlagi launþega af 150.000 kr. mánaðarlaunum í 40 ár, 5% raunávöxtun og 38,76% tekjuskatti. Fyrst skulum við skoða dæmi um viðbótarlífeyrissparnaðinn: Framlag á mánuði 3.000 kr. Tekjuskattur 0 Mótframlag launagreiðanda 2% eða 3.000 kr. Mótframlag ríkisins 0,2% eða 300 kr. Heildarframlag á mánuði verður því 6.300 kr. Tekjuskattur við útgreiðslu 3.620.147 Fjármagnstekjuskattur er enginn. Inneign eftir skatta 5.719.758 kr. Ef dæmi er svo tekið af öðrum sparnaði, þá er framlag launþegans það sama eða 3.000 kr. á mánuði. Af þeirri fjárhæð þarf að greiða strax tekjuskatt sem nemur 1.163 kr. pr. mán. Mótframlag launagreiðanda er ekkert. Mótframlag ríkisins er ekkert. Heildarframlag á mánuði nemur því aðeins 1.837 kr. Tekjuskattur við útgreiðslu er enginn Fjármagnstekjuskattur nemur 169.606 kr. Inneign eftir skatta mun því nema 2.408.306 kr. Af þessu dæmi sést að mismunurinn á séreignarsparnaði og öðrum sparnaði, þar sem ekki er greitt mótframlag eða um skattfrestun að ræða, er umtalsverður eða 3.311.452 kr. Þarf því ekki frekar vitnana við.