Með kjarasamningum ASÍ og VSÍ árið 1969 þar sem samið var um almenna aðild verkafólks að lífeyrissjóðunum, fjölgaði lífeyrissjóðunum mjög mikið og var fjöldi þeirra þegar mest var um 100 talsins. Hin síðari ár hefur hins vegar lífeyrissjóðum fækkað verulega, einkum með sameiningu, og eru nú um 55 starfandi lífeyrissjóðir í landinu.
Þegar lögin um almannatryggingar voru sett árið 1946 voru lífeyrissjóðirnir alls um 15 talsins. Í þessum sjóðum voru starfsmenn ríksins, nokkurra bæjarfélaga, banka og stærri fyrirtækja í samvinnu- og einkarekstri. Á áratugnum 1950 til 1960 fjölgar lífeyrissjóðum verulega og árið 1962 voru þeir orðnir um 50 talsins og höfðu þá höfðu þá bæst við ýmsir stéttarfélagasjóðir, þ.á.m. lífeyrissjóðir innan vébanda verksmiðjufólks, verslunarmanna, flugmanna, flugvirkja og verkfræðinga. Fækkun lífeyrissjóðanna má rekja til þess að menn hafa viljað stækka sjóðina, þannig að þeir væru betur í stakk búnir til að standa við lífeyrisskuldbindingar sínar í framtíðinni, en auk þess hefur verið litið til þess að lækka rekstrarkostnað sjóðanna með samruna þeirra. Þróun síðustu tveggja ára hefur verið ör að þessu leyti til. Í árs lok 1998 voru lífeyrissjóðirnir 66 talsins. Lífeyrissjóður Félags leikara, Lífeyrissjóður Iðnaðarmannafélags Suðurnesja og Lífeyrissjóður íslenskra stjórnunarstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli sameinuðust Lífeyrissjóðnum Einingu á árinu 1999. Lífeyrissjóður alþingismanna, Lífeyrissjóður ráðherra og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild og B-deild eru nú sameinaðir í einn sjóð, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóður verkafólks í Grindavík sameinaðist Lífeyrissjóði Suðurnesja í byrjun árs 2000, Lífeyrissjóður blaðamanna sameinaðist Lífeyrissjóði verzlunarmanna í ársbyrjun 2000 og Lífeyrissjóður starfsmanna Sjóvátryggingafélags Íslands h.f. sameinaðist Lífeyrissjóði verzlunarmanna 1. júlí s.l. Þá sameinaðist Lífeyrissjóður leigubifreiðastjóra Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda í ársbyrjun 2000. Nýjasta sameiningin er svo fyrir norðan, þegar Lífeyrissjóður KEA sameinaðist Lífeyrissjóði Norðurlands nú um áramótin.