Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi s.l. vor breytingar á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem m.a. er kveðið á um skyldu stjórnar lífeyrissjóðs að setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti sjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna. Skulu slíkar reglur staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.
Eins og kunnugt er hefur Fjármálaeftirlitið nýlega gefið út sem drög "Leiðbeiningar um efni reglna fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti." Landssamtök lífeyrissjóða telja eðlilegt að hefja vinnu við gerð verklagsreglna fyrir lífeyrissjóðina, þegar lokið hefur verið við að ganga frá verklagsreglum fyrir fjármálafyrirtækin. Þó leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins um verklagsreglur hafi fyrst og fremst verið sendar fjármálafyrirtækjum til umsagnar, er ekki síður mikilvægt að fagfjárfestar, svo sem lífeyrissjóðir, komi á framfæri ábendingum eða athugasemdum sínum varðandi þessar leiðbeiningar Tímamörk fyrir þá aðila sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri við Fjármálaeftirlitið er fyrir 8. september n.k. Landssamtök lífeyrissjóða munu sérstaklega skoða þessar leiðbeiningar fyrir tilskilinn tímafrest.