Verklagsreglur lífeyrissjóða í athugun

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómanna og stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða, telur að LL eigi að hafa frumkvæði að því að setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti sjóðanna. Landssamtökin munu beita sér í málinu.

Árni lét þessi orð falla á námskeiði Landssamtaka lífeyrissjóða um lífeyrissjóðalögin, en þar hafði Árni framsögu um þau ákvæði laganna sem fjalla um rekstur og innra eftirlit hjá sjóðunum. Orðrétt sagði Árni: "Í framhaldi af umfjöllun um innra eftirlit og skýrar reglur um verksvið, ábyrgð og heimildir starfsmanna lífeyrissjóða og í ljósi mikilla umræðna að undanförnu um verklagsreglur fjármálafyrirtækja varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna þeirra má spyrja hvort lífeyrissjóðirnir hafi sett sér nægjanlega skýrar reglur í þessu sambandi. Ég tel víst að svo sé ekki og tel reyndar að innan skamms muni verða settar reglur sem ná til starfsmanna lífeyrissjóða þótt vissulega sé ekki hægt að leggja þá að jöfnu við starfsmenn verðbréfafyrirtækja sem miðla bæði upplýsingum og verðbréfum til almennings. Hér má benda á að IV. kafli laga um verðbréfaviðskipti sem fjallar um meðferð trúnaðarupplýsinga gildir samkvæmt áliti Fjármálaeftirlitsins um starfsemi lífeyrissjóða eftir því sem við getur átt. Þá má líka nefna Siðareglur fyrir aðila að Verðbréfaþingi Íslands sem fjalla um viðskiptahætti á markaðnum, heiðarleika og sanngirni, hagsmunaárekstra og misnotkun aðstöðu, þagnarskyldu o.fl. Þótt lífeyrissjóðirnir séu ekki ennþá beinir aðilar að Verðbréfaþinginu þá eru tveir lífeyrissjóðir orðnir það í gegnum eigin verðbréfamiðlun og mér þykir líklegt að þessum sjóðum eigi eftir að fjölga. Reglur þessar eru því farnar að taka óbeint til starfsmanna lífeyrissjóða og ýmislegt í siðareglunum og kaflanum um trúnaðarupplýsingar í lögunum um verðbréfaviðskipti á við um þá starfsmenn lífeyrissjóðanna sem höndla með verðbréf. Ég tel rétt að Landssamtök lífeyrissjóða hafi frumkvæði í því að lífeyrissjóðirnir setji sér verklagsreglur í þessu efni og sýni gott fordæmi í því að bæta siðferðið á fjármálamarkaðnum og veit reyndar að samtökin munu beita sér í þessu máli." Sjá nánar á heimasíðu LL undir kaflanum "Greinar".