Verðbólgureikningsskil aflögð hjá lífeyrissjóðunum.

Til að tryggja samræmi í reikningsskilum lífeyrissjóða leggur Fjármálaeftirlitið til að verðbólgureikningsskil verði aflögð hjá lífeyrissjóðunum frá og með reikningsárinu 2002.

Í fyrra var lögum um ársreikninga, nr 144/1994, breytt í þá veru að ákvæði laganna varðandi verðbólgureikningsskil voru afnumin. Í bráðabirgðaákvæðum laganna er þó heimilt að taka tillit til áhrifa almennra verðlagsbreytinga við gerð ársreikninga vegna reikningsára sem hefjast á árunum 2002 og 2003. Um gerð ársreikninga lífeyrissjóða gilda sérstakar reglur sem Fjármálaeftirlitið hefur sett með heimild í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Nú hefur Fjármálaeftirlitið, m.a. vegna tilmæla frá Landssamtökum lífeyrissjóða, sent tillögur til lífeyrissjóðanna, þar sem lagt er til að verðbólgureikningsskil hjá lífeyrissjóðunum verði aflögð frá og með reikningsárinu 2002, m.a. til að tryggja samræmi í reikningsskilum sjóðanna. Lífeyrissjóðum og öllum öðrum aðilum gefst kostur á að gera athugasemdir við þessar tillögur FME um afnám verðbólgureikingsskila fyrir 31. ágúst n.k.