Vandi íslensku lífeyrissjóðanna léttvægur í samanburði við önnur lönd

Í heild virðist vandi íslensku lífeyrissjóðanna léttvægur samanborið við erfiðleikana sem steðja að lífeyriskerfum flestra ríkra landa. Segja má að Íslendingar hafi leyst lífeyrismálin með skyldusparnaði. Þessar upplýsingar koma fram í athyglisverðri grein í nýjasta riti Peningamála Seðlabankans, eftir tvo starfsmenn bankans, þau Guðmund Guðmundsson, tölfræðing og Kristíönu Baldursdóttur, deildarstjóra á tölfræðisviði.

Í árslok 2004 voru eignir lífeyrissjóðanna nokkru meiri en andvirði landsframleiðslu eins árs. Horfur eru á að þær vaxi um svipaða upphæð næstu 10 árin. Rúmlega fimmtungur eigna sjóðanna er nú varðveittur í erlendum verðbréfum, en til að ávaxta féð, sem bætast mun við, þarf væntanlega að fjárfesta hærra hlutfall erlendis. Afkoma lífeyrissjóða ræðst af dánarlíkum félagsmanna, starfsævi, launaþróun og ávöxtun fjármagns sjóðanna. Þó er ekki er að sjá að stórfelldur peningasparnaður Íslendinga með lífeyrissjóðum hafi leitt til samsvarandi þjóðhagslegs sparnaðar.

Langstærsti hluti erlendu verðbréfaeignar lífeyrissjóðanna er hlutabréf, ýmist í einstökum félögum eða í verðbréfasjóðum sem fjárfesta eingöngu í hlutabréfum. Síðustu fimm árin hafa hlutabréf verið í kringum 80% af erlendum verðbréfum sjóðanna og um það bil 17-18% af hreinni eign þeirra. Niðursveifla í hlutabréfavísitölum, eins og átti sér stað í heiminum á árunum 2000-2002, hefur því töluverð áhrif á ávöxtun sjóðanna enda varð ávöxtun þeirra neikvæð á þessum árum eftir að hafa verið góð árin þar á undan þegar hlutabréfaverð var á upp leið. Ef tekin eru saman öll hlutabréf og hlutabréfasjóðir, bæði erlend og innlend, kemur í ljós að slíkar fjárfestingar hafa aukist mjög á undanförnum einum og hálfum áratug. Árið 1990 var eign lífeyrissjóðanna í þeim aðeins liðlega 1% af hreinni eign en í lok árs 2004 rúmlega 31%.


Sjá hér greinina í Peningamálum