Úthlutun hagnaðar til allra sjóðfélaga Lífeyrissjóðs verkfræðinga.

Tryggingafræðilegur hagnaður Lífeyrissjóðs verkfræðinga nam í árslok 2006 um 1.365 milljónum króna. Hagnaður er í samþykktum sjóðsins skilgreindur sem mismunur á hreinni eign til greiðslu lífeyris og áföllnum skuldbindingum. Samkvæmt samþykktunum skal verja hagnaðinum til aukningar áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga, makalífeyrisþega og barnalífeyrisþega. Tillaga stjórnar, sen samþykkt var á ársfundi sjóðsins, 20. mars s.l., gerir ráð fyrir að um 1.065 mkr. fari til hækkunar allra réttinda miðað við 31. des. 2006, en um 300 mkr. fari til hækkunar á hlutfalli uppbótar úr 80% í 90%.

 

Almenn góð ávöxtun.

Ávöxtun verðbréfa Lífeyrissjóðs verkfræðinga var almennt góð á árinu 2006 nema innlendra skuldabréfa sem lækkuðu nokkuð á síðasta fjórðungi ársins. Þannig skiluðu erlend verðbréf yfir 30% ávöxtun en þar kom bæði til góð ávöxtun í erlendri mynt og gengislækkun íslensku krónunnar. Innlend hlutabréf  skiluðu yfir 17% ávöxtun. Verðbólgan var mikil á árinu eða 6,95%. Ávöxtun deilda var sem hér segir:

 


                              Hrein  nafnávöxtun  Hrein raunávöxtun   Meðalávöxtun 5  ár 
Samtryggingardeild

17,2%

9,6%

4,8%

Séreignarleið 1

8,5%

1,5%

5,1%

Séreignarleið 2

13,6%

6,2%

 -

 

Mismunandi ávöxtun eftir deildum skýrist af mismunandi eignasamsetningu.
 Í samtryggingardeild eru eignir mjög dreifðar á milli eignarflokka, bæði innlendra og erlendra. Séreignarleið 1 fjárfestir eingöngu í innlendum skuldabréfum en séreignarleið 2 fjárfestir í innlendum og erlendum skulda- og hlutabréfum.

Rekstur séreignarleiðar 2 hófst í mars og eru ofangreindar ávöxtunartölur fyrir 10 mánaða tímabil en framreiknaðar til eins árs. Til samanburðar skal nefnt að nafnávöxtun fyrsta heila 12 mánaða tímabilsins, frá mars 2006 til febrúar 2007, var 14,2%.

Ávöxtun séreignarleiðar 1 lækkaði verulega á síðasta fjórðungi ársins eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um lækkun virðisaukaskatts á matvælum sem tæki gildi 1. mars 2007. Þetta kom fjárfestum almennt verulega á óvart. Þar sem vænta mátti lægri verðbólgu í kjölfar skattbreytingarinnar lækkuðu skuldabréf í verði, sem jafnframt þýddi að markaðsvextir bréfanna hækkuðu. Um áramótin voru innri vextir séreignarleiðar 1 mjög háir eða um 7,5% raunvextir. Það þýðir að ef skuldabréf í sjóðnum eru geymd til gjalddaga þá fást 7,5% raunvextir á tímabilinu.

Búist við hækkun ávöxtunar skuldabréfasjóða nú í vor.
Markaðsaðilar búast við að markaðsvextir skuldabréfa lækki á ný á vormánuðum 2007 og þá má búast við að ávöxtun skuldabréfasjóða hækki í kjölfarið. Með öðrum orðum þá jafnast ávöxtun skuldbréfasjóða á milli ára eftir því hvernig ávöxtunarkrafa skuldabréfa þróast. Því er ástæða til að búast við góðri ávöxtun á árinu 2007, bæði vegna hárra innri vaxta og verðhækkunar bréfa. Á yfirlitum séreignardeildar er sýnd nafn- og raunávöxtun ársins 2006.

Sjóðfélagar sem greitt hafa iðgjöld reglulega allt árið sjá ávöxtun sem er svipuð meðalávöxtun leiðarinnar. Reiknuð ávöxtun getur hnikast til eftir því hvenær mánaðar er greitt inn. Hins vegar sjá þeir sem greiddu stopul iðgjöld eða einungis hluta úr ári ávöxtun sem getur verið talsvert frábrugðin meðalávöxtun ársins, betri eða verri eftir greiðslumynstri.