Undarlegur fréttaflutningur: Keyptu lífeyrissjóðirnir í deCode?

Nokkuð undarleg og óvönduð frétt var lesin í Ríkisútvarpinu í gær. Þar var fullyrt að lífeyrissjóðir hefðu keypt ólöglega bréf í deCode. Ekki er getið heimildarmanna eða hvaða sjóðir keyptu!

Frétt Útvarpsins hófst á því að þeir sem keyptu bréf fyrir eina m.kr. í deCode Genetics, þegar gengi þeirra var hæst í byrjun ársins, geti átt von á að verðmæti þeirra nái 580.000 kr. að ári, samkvæmt spám erlendra fjármálafyrirtækja. Þá er fullyrt, án þess að getið sé heimildarmanna, að lífeyrissjóðir hafi keypt þessi bréf á háu gengi, en þeir máttu ekki kaupa í óskráðum erlendum félögum í byrjun ársins samkvæmt þágildandi lögum. Niðurlag fréttarinnar er hið undarlegasta. Þar segir að þeir forsvarsmenn lífeyrissjóða sem fréttastofa Ríkisútvarpsins ræddi við segjast ekki hafa keypt þessi bréf. Margir lífeyrisjóðir hafi að vísu ætlað að kaupa í deCode, en fjármálaeftirlitið hafi ekki talið það heimilt. Í yfirliti hádegisfréttanna í gær í Ríkisútvarpinu var hins vegar fullyrt af fréttastofunni að lífeyrissjóðirnir hafi keypt ólöglega bréf í deCode! Nú skal ekkert um það sagt, hvort frétt þessi er rétt eða röng. Tilgangur fréttarinnar er hins vegar tvíþættur. Annars vegar er fullyrt að lífeyrissjóðir hafi keypt bréf í deCode í trássi við lög og í annan stað að sjóðirnir hafi tapað á þessum kaupum. Þannig er verið að gera lífeyrissjóðuna tortryggilega í augum almennings þó svo virðist að enginn flugufótur sé fyrir þessari frétt. Hér er því um óvandaðan fréttaflutning að ræða í úrvarpi allra landsmanna.