Þorgils Ámundason, rekstrarhagfræðingur, sem starfar við fjármálaráðgjöf, skrifar mjög villandi grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann fjallar um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna Því miður er greinin full af misskilningi og ranghugmyndum. Því er nauðsynlegt að leiðrétting komi fram sem allra fyrst.
Þorgils telur að lífeyrissjóðirnir, með erlendum fjárfestingum sínum, beri höfuðábyrgð á veikingu íslensku krónunnar. Þessi fullyrðing stenst engan veginn. Lífeyrissjóðirnir hafa lítið fjárfest erlendis á þessu ári. Ýmis tíðindi í efnahagsmálum skýra veikingu krónunnar, s.s. mikill viðskiptahalli, samdráttur í veiðiheimildum sem ákveðinn var fyrir þetta fiskveiðiár og yfirstandandi sjómannaverkfall sem nú hefur varað á annan mánuð. Jafnframt berst markaðinum orðrómur um frekari skerðingu aflaheimilda á næsta fiskveiðiári. Í sjálfu sér nægja þessir áhrifaþættir einir og sér til þess að stuðla að veikingu krónunnar. Það er því af og frá að lífeyrissjóðirnir beri ábyrgð á lækkun krónunnar. Á árinu 1999 fjárfestu lífeyrissjóðirnir umtalsvert erlendis en á sama tíma styrkist íslenska krónan verulega og sama þróun hélt áfram fram á vor á árinu 2000. Síðan hefur dregið úr fjárfestingum lífeyrissjóðanna erlendis en á sama tíma hefur krónan haldið áfram að veikjast. Veiking íslensku krónunnar er flóknara mál en svo að hægt sé með einfaldri fjármálaráðgjöf að gera lífeyrissjóðina að blóraböggli hvernig komið er enda á ferðinni fáranleg fullyrðing sem stenst enga skoðun. Þorgils telur eðlilegra að lífeyrissjóðirnir fjárfesti alfarið í innlendum verðbréfum, og tiltekur þar sérstaklega ríkisskuldabréf, frekar en að festa hluta af eignum sínum í erlendum verðbréfum. Fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis eru til þess ætlaðar að dreifa áhættu í verðbréfasafni sjóðanna til lengri tíma þannig að sjóðirnir séu ekki eingöngu háðir afkomu íslensks sjávarútvegs heldur geti dreift áhættu sinni með fjárfestingum í atvinnugreinum annarra þjóða. Þess má jafnframt geta að eignasamsetning íslensku lífeyrissjóðanna er frábrugðin því sem þekkist hjá þeim löndum sem framarlega standa í lífeyrismálum í Evrópu að því leyti að hlutabréf eru hér lægra hlutfall eigna en víða erlendis. Sama á við ef litið er til lífeyrissjóða í Bandaríkjunum. Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna eru dreifðar milli mynta og landssvæða samkvæmt alþjóðlegum vísitölum. Það er því beinlínis rangt að gefa í skyn að verulegur hluti fjárfestinga sjóðanna erlendis sé í japönskum hlutabréfum, eins og gefið er í skyn í greininni þar sem reiknuð er verðmætisrýrnun japanskra hlutabréfa frá árinu 1988. Ef íslensku lífeyrissjóðirnir hefðu hins vegar haft heimildir til erlendra fjárfestinga frá árinu 1988 hefðu fjárfestingar þeirra tvö og hálffaldast og ef miðað er við alþjóðlega heimsvísitölu hlutabréfa náð ávöxtun sem samsvarar 7-8% árlegum vöxtum á dollar og hefur þá ekki verið tekið tillit til styrkingar dollar gagnvart íslensku krónunni á fyrrgreindu tímabili. Íslensku lífeyrissjóðirnir fengu heimildir til fjárfestinga erlendis á árinu 1994. Þrátt fyrir að hlutabréfaverð hafi lækkað á síðasta ári er ávöxtunin vel yfir vöxtum af innlendum ríkisskuldabréfum á viðmiðunarárunum 1994 til 2000. Þannig liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa náð mun betri ávöxtunarárangri með fjárfestingum sínum í innlendum og erlendum hlutabréfum að hluta en ef eingöngu hefði verið fjárfest í íslenskum verðbréfum með ríkisábyrgð. Fimm ára meðalraunávöxtun lífeyrissjóðanna upp á ríflega 7% segir í raun allt sem segja þarf.