Umsögn LL um lífeyrissjóðafrumvarpið

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða vegna frumvarps til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 260. mál. Meginefni frumvarpsins felst í breytingum á 36. gr. laganna á reglum um fjárfestingarheimildir. Það er skoðun stjórnar LL að þær breytingatillögur gangi of skammt.

Landssamtök lífeyrissjóða telja nauðsynlegt að heimildir til að fjárfesta í hlutabréfum verði auknar úr 35% í 60% af hreinni eign sjóðanna og í erlendum gjaldmiðlum úr 40% í 60%. Ljóst er að þrátt fyrir rýmkun fjárfestingarheimilda sem frumvarpið gerir ráð fyrir, mun senn draga úr möguleikum lífeyrissjóða til að nýta sér þá fjárfestingakosti sem í boði eru. Það er álit Landssamtaka lífeyrissjóða, eftir könnun sem gerð hefur verið hjá stærri lífeyrissjóðunum, að strax á næsta ári munu margir lífeyrissjóðir hafa náð 50% markinu. M.a. með hliðsjón af einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar, svo og sérstaklega góðri ávöxtun hlutabréfa á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, er ljóst að verulega getur dregið úr ávöxtunarmöguleikum lífeyrissjóðanna strax á næsta ári. Þá er ekki síður mikilvægt að huga að framþróun íslenska hlutabréfamarkaðarins. Það væri mjög slæmt fyrir innlenda markaðinn og gæti haft í för með sér óeðlilegar verðlækkanir á innlendum hlutabréfum, ef eftirspurn lífeyrissjóðanna eftir hlutabréfum myndi stórlega dragast saman, þar sem lífeyrissjóðirnir gætu ekki nýtt sér þá fjárfestingarkosti sem í boði væru, þar sem þeir hefðu þá náð 50% markinu. Með því að rýmka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna að þessu leyti upp í 60%, gæfist aukið svigrúm að huga að framtíðarstöðu þessara mála við heildarendurskoðun lífeyrissjóðalaganna. Líklegt er að sú endurskoðun eigi sér stað í framhaldi af vinnu við skýrslu fjármálaráðherra um lögin, sem gert er ráð fyrir að hefjist þegar á næsta ári.