Tveir nýir í aðalstjórn Landssamtaka lífeyrissjóða

Tveir nýir aðalstjórnarmenn voru kjörnir á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í gær: Helgi Magnússon og Konráð Alfreðsson. Tveir aðrir voru endurkjörnir til setu í aðalstjórn: Gunnar Baldvinsson og Haukur Hafsteinsson. Fyrir í stjórninni voru Arnar Sigurmundsson, Friðbert Traustason, Guðrún Guðmannsdóttir og Þorbjörn Guðmundsson.
Tveir aðalstjórnarmenn létu af störfum vegna breytinga á starfsvettvangi: Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Páll Pálsson. Sama á við um varastjórnarmanninn Sigurbjörgu Björnsdóttur. Þeim voru öllum færðar innilegar kveðjur af þessu tilefni.

Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, flutti aðalfundarfulltrúum yfirgripsmikið og fróðlegt erindi um „lífeyrissjóði á krossgötum“. Hann kvað það mikinn heiður að fá að ávarpa samkomuna, ekki síst þegar sjálft lífeyriskerfið væri á tímamótum í tvennum skilningi. Annars vegar væru nánast upp á dag liðin 40 ár frá því að lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði voru settir á laggirnar með samkomulagi atvinnurekenda og samtaka launafólks vorið 1969. Hins vegar þyrftu lífeyrissjóðir nú að horfast í augu við nýja og breytta tíma vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu.

Ólafur hefur stundað rannsóknir á lífeyriskerfinu undanfarna mánuði, meðal annars með stuðningi Landssamtaka lífeyrissjóða. Hann fór meðal annars yfir áhrif efnahagshrunsins á fjárhag lífeyrissjóða og sagði að sjóðirnir í rannsóknarúrtaki sínu hefðu að meðaltali skilað 3,7% rekstrarafgangi árið 2007 en rekstrarhallinn á árinu 2008 næmi hins vegar 9,1%.

Ólafur sá fyrir að lífeyrissjóðir muni sameinast enn frekar í nánustu framtíð, sjóðirnir yrðu færri en stærri. Æskilegur fjöldi sjóðanna yrði 5-8 á landinu, líkt og talað væri um í nýlegri skýrslu Samtaka atvinnulífsins.

Erindi Ólafs Ísleifssonar: Lífeyrissjóðir á krossgötum".