Raunávöxtun Gildis-lífeyrissjóðs á árinu 2007 var 2,4% eða 8,4% nafnávöxtun. Meðaltal raunávöxtunar sl. 5 ár er 11,6% eða 17% nafnávöxtun. Afkoma sjóðsins er góð þegar tekið er tillit til þeirra miklu lækkana sem urðu á hlutabréfamörkuðum síðari hluta ársins, bæði innanlands og utan.
Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á stöðu sjóðsins í árslok 2007 eru eignir 19 milljörðum króna eða 5% hærri en heildarskuldbindingar sem sýnir að staða sjóðsins er mjög sterk þrátt fyrir að verðbréfamarkaðir hafi gefið mikið eftir á síðari hluta ársins 2007 og einnig í ljósi þess að réttindi sjóðfélaga voru hækkuð um 10% á síðasta ári og um 7% árið 2006.
Raunávöxtun skuldabréfa sjóðsins var 4,6%, ávöxtun innlendra hlutabréfa var 8,9%, en Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands lækkaði um 1,4%. Ávöxtun erlendra hlutabréfa sjóðsins var -5,2% í íslenskum krónum, en til samanburðar lækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) um 7,6%. Ennfremur gerði sjóðurinn gjaldeyrissamninga til að verjast gengistapi á árinu sem hlaust af styrkingu krónunnar. Raunvöxtun séreignardeildar sjóðsins var þannig: Framtíðarsýn I -2,4% (nafnávöxtun 3,5%), Framtíðarsýn II -0,5% (nafnávöxtun 5,5%) og Framtíðarsýn III 4,9% (nafnávöxtun 11%).
Fjárfestingartekjur námu samtals 18,4 milljörðum króna og hrein eign til greiðslu lífeyris var 238,2 milljarðar kr. í árslok 2007 og hækkaði um 23 milljarða frá fyrra ári eða 10,6%. Eignaskiptingin var með eftirfarandi hætti í árslok 2007: 51% af eignum sjóðsins voru í innlendum skuldabréfum, 21% í innlendum hlutabréfum og 28% í erlendum verðbréfum.
Á árinu greiddu 4.237 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins, samtals að fjárhæð 10.133 milljónir króna, fyrir 44.633 sjóðfélaga. Sjóðfélagar í árslok 2007 voru samtals 167.758. Lífeyrisgreiðslur námu 5.882 milljónum króna og heildarfjöldi þeirra sem fengu greiddan lífeyri á árinu var 12.942.