Tillögur stjórnvalda í skuldamálum og áhrif á viðbótarlífeyrissparnað

Stjórnvöld kynntu fyrir skemmstu fyrirhugaðar aðgerðir í skuldamálum heimila sem varða viðbótarlífeyrissparnað. Aðgerðirnar eiga að koma til framkvæmda 1. júlí 2014. Samkvæmt þeim verður rétthöfum viðbótarlífeyrissparnaðar gert heimilt að ráðstafa allt að 4% iðgjaldi sínu og 2% mótframlagi launagreiðanda inn á húsnæðislán. Greiðslurnar verða skattlausar en að hámarki 500 þúsund kr. á ári á fjölskyldu í þrjú ár eða samtals 1.5 m. kr. Aðgerðin mun taka til þeirra sem skulduðu húsnæðislán fyrir 1. desember 2013 en öðrum verður gert heimilt að leggja fyrir í húsnæðissparnað. Stjórnvöld áætla að aðgerðin hefjist þann 1. júlí 2014 og samhliða verði frádráttarbært iðgjald launþega til viðbótarlífeyrissparnaðar hækkað að nýju úr 2% í 4%.

Stjórnvöld hafa jafnframt ákveðið að framlengja enn á ný tímabundinni opnun viðbótarlífeyrissparnaðar út árið 2014 og hækka útgreiðsluheimild úr 6.2 m. kr. í 9.0 m. kr. á 15 mánuðum. Hámarksúttekt á mánuði hækkar úr 416 þús.kr. í 600 þús.kr.