Tillaga OECD byggð á misskilningi og í andstöðu við skyldutryggingakerfi lífeyrisréttinda

Í samantekt OECD á nýlegri skýrslu sinni um íslenskt efnahagslíf er lagt til að lögum um lífeyrissjóði verði breytt. Breytingarnar verði á þann veg að sjóðunum verði bannað að veita fasteignalán í þeirri mynd sem nú er með veði í fasteign. Þess í stað vill OECD að veð sé tekið í framtíðarréttindum sjóðsfélagans. Standi lánþeginn ekki í skilum myndi hann því missa lífeyrisréttindi sín. Til þess að draga úr hættunni á því að verðmæti veðsins verði lægra en lánið leggur stofnunin jafnframt til að hámarkslánsupphæð verði takmörkuð við eitthvert hlutfall af þeim réttindum sem viðkomandi sjóðsfélagi hefur áunnið sér og mun vinna sér inn þegar fram líða stundir. Landssamtök lífeyrissjóða telja þessa tillögu OECD byggða á misskilningi. Til að kerfið geti virkað heildstætt sem skyldutryggingarkerfi er sjóðfélögum óheimilt samkvæmt lögum að framselja réttindi sín í sjóðunum.

Framsalsbann gildir jafnt fyrir frjálsan lífeyrissparnað samkvæmt lögum um lífeyrisjóði en þar segir m.a. að óheimilt sé framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd eða lífeyrisréttindi í séreign. Ekki verður gerð aðför í réttindum samkvæmt slíkum samningi og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða réttindin á nokkurn hátt.

Þá felur tillagan í sér hættu á að aukin byrði fellur á almannatryggingakerfi landsins og þar með skattborgara en sjóðfélagar myndu tapa réttindum sínum ef lífeyrissjóðir ganga að réttindunum viðkomandi sem veðum vegna lána. Svo virðist sem sérfræðingar OECD geri sér ekki grein fyrir því að íslenska lífeyrissjóðakerfið byggist á þeirri grundvallarforsendu að sjóðfélagar ávinna sér lífeyrisréttindi í samtryggingu en séreign einungis með frjálsum lífeyrissparnaði.

Rétt þykir að taka fram að íslensku lífeyrissjóðirnir hafa staðið við sínar skuldbindingar er varða samninga við fjármálastofnanir og Íbúðalánasjóð frá síðasta vetri um ráðstafanir vegna skuldavanda heimilanna. Vanskil vegna íbúðarlána  eru langtum minni hjá lífeyrissjóðunum en hjá öðrum lántakendum íbúðarlána sem skýrist af því að veðkröfur sjóðanna eru almennt um 65% af markaðsvirði eignanna. Tillaga OECD er því byggð á misskilningi sem hefði mátt fyrirbyggja hefðu sérfræðingar OECD leitað réttra upplýsinga, t.d. hjá Landssamtökum lífeyrissjóða.