Tilboð sem ekki var hægt að hafna!

„Lífeyrissjóðum bauðst hér geysilega góð ávöxtun, við fengum einfaldlega tilboð sem ekki var hægt að hafna. Viðskiptin hafa mjög jákvæð áhrif á stöðu lífeyrissjóðanna og hafa auk þess góð áhrif á sjálft þjóðarbúið.  Við erum að taka skynsamlega ákvörðun og gera jafnframt góð kaup .“  Með þessum orðum voru kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum fyrir 88 milljarða króna „römmuð inn“ í máli Hrafns Magnússonar og Arnar Sigurmundssonar, framkvæmdastjóra og formanns Landssamtaka lífeyrissjóða, á fréttamannafundi í Seðlabanka Íslands í morgun.

Af hálfu Seðlabanka sátu fyrir svörum Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sturla Pálsson, forstöðumaður alþjóða- og markaðssviðs bankans. Már lýsti mikilli ánægju með samkomulagið og sagði lífeyrissjóðina legga  „þungt lóð á vogarskálar efnahagslegrar endurreisnar í landinu“.


Már varð að svara fyrir þau ummæli sín á dögunum að íslensk íbúðabréf, sem Seðlabanki Íslands eignaðist með samkomulagi við skiptastjórn Landsbanka Íslands í Luxemborg og við seðlabanka Luxemborgar, yrðu seld í opnu útboði. Svo kæmi að búið væri að selja íslensku lífeyrissjóðunum bréfin  í lokuðu útboði.


„Mér fannst skynsamlegt  að þessi bréf færu í opið útboð og hélt að hægt væri að koma því ferli í kring en heill her sérfræðinga og lögfræðinga sannfærði mig um hið gagnstæða. Opið útboð var ekki fær leið og í raun skiptir það ekki miklu máli því  lífeyrissjóðirnir hefðu ábyggilega verið með stærstu aðilum í opnu útboði, vegna þess að það eru ekki margir aðrir sem uppfylla tilheyrandi skilyrði,“ sagði seðlabankastjórinn og bætti við:
„Fáir kostir voru í stöðunni til að selja íslensk skuldabréf  fyrir svo mikla fjármuni í gjaldeyri. Það hefði ekki verið álitlegt fyrir okkur að eiga bréfin og sitja á þeim með viðskiptaóvissu hangandi yfir markaðnum og reyna á sama tíma að hanna farveg opins útboðs.  Væntanlegur kaupandi varð að hafa burði til viðskiptanna og eiga gjaldeyri, utan gjaldeyrishafta.  Kaupendahópurinn varð helst að vera vel skilgreinanlegur og viðskiptin urðu að ganga hratt fyrir sig. Þessi markmið náðust og samkomulag við lífeyrissjóðina var því langbesti kosturinn í stöðunni.“


Þá kom fram hjá seðlabankastjóra að í tilboði gagnvart lífeyrissjóðunum hefði verið kveðið á um að viðskiptakjörin yrðu sjóðunum hagstæðari eftir því sem þeir keyptu meira af skuldabréfunum. Niðurstaðan varð sú að sjóðirnir keyptu öll þau bréf sem í boði voru með fastri ávöxtunarkröfu upp á 7,2%.


Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon sögðu að skuldabréfakaupin myndu flýta fyrir því að gjaldeyrishöft yrðu afnumin í skrefum og lífeyrissjóðirnir legðu mikla áherslu á það. Þeir tóku skýrt fram að þessi viðskipti myndu í engu breyta fyrri yfirlýsingum og áformum um ýmis fjárfestingaverkefni sem lífeyrissjóðir kæmu að á næstu árum til að stuðla að endurreisn efnahags-  og atvinnulífs í landinu.


Um þriðjungur heildareigna íslenskra lífeyrissjóða telst til erlendra eigna og þær eru gjarnan í formi auðveljanlegra hlutabréfa. Fram kom á fréttamannafundinum að erlendar eignir sjóðanna væru nokkuð mismunandi og hver sjóður hefði sjálfdæmi um hvað hann seldi til að fjármagna skuldabréfakaupin umræddu.  Spurn eftir bréfum Seðlabankans reyndist meiri en framboðið og því var skuldabréfum í útboðinu skipt á milli sjóðanna í samræmi við tiltekna reiknireglu þar sem heildareignir sjóðanna og erlendar eignir þeirra í árslok 2009 voru vegnar jafnt saman.