Þróun eigna lífeyrissjóða

Eignir lífeyrissjóða landsins drógust lítillega saman milli maí og júní síðast liðnum. Þær voru 2.243 milljarðar króna í lok maí en 2.242 milljarðar króna í lok júní. Af nýjustu hagtölum Seðlabanka Íslands sem birtar eru á heimasíðu bankans má sjá að mestu munar um breytingu á erlendri verðbréfaeign sjóðanna. Ástæðuna má að mestu rekja til styrkingar íslensku krónunnar enda eru eignir sjóðanna gefnar upp í þeim gjaldmiðli. Innstæður og sjóðir hafa ekki verið hærri frá því í september 2010. Alls voru 161,8 milljarðar króna geymdir með þeim hætti í lok júní.

Eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum hefur farið ört vaxandi. Virði innlendra hlutabréfa í eigu sjóðanna var 106 milljarðar króna um síðustu áramót en í lok júní síðast liðnum var virði þeirra hins vegar komið í 143 milljarða króna og hafði því aukist um ríflega þriðjung á hálfu ári.