Nú nýlega kom út skýrsla á vegum Evrópusambandsins um framtíðarkostnað sem fellur á lönd innan EB vegna þess að eldri borgurum fer sífellt fjölgandi sem hlufall af íbúafjölda. Í þessu sambandi er oft talað um eftirlaunakreppu, sem mun rísa hæst á árunum 2030-2040.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þessar: Að öllu jöfnu mun útgjöld vegna lífeyrismála, sérstaklega innan almannatryggingakerfanna, aukast verulega á árunum 2000-2050. Megin þunginn í útgjöldum mun þó ekki vera samtímis hjá öllum þjóðum innan EB-landanna. Hjá sumum aðildarþjóðunum mun toppurinn nást um 2030, hjá öðrum um 2040 og hjá enn öðrum þjóðum innan EB um 2050. Hæsti toppur þjóðarútgjalda vegna öldrunar mun þó nást á árunum 2030 til 2040. Aukinn lífeyriskostnaður mun að meðaltali verða um 3% til 5% af vergri landsframleiðslu í flestum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Útgjöldin verða þó mismunandi, en einna mest hjá þeim þjóðum, sem ekki hafa haft fyrirhyggju að byggja upp sjóðsmyndandi lífeyriskerfi, t.d. munu útgjöldin vegna öldrunar verða 7,9% af vergri landsframleiðslu á Spáni og 12,2% í Grikklandi. Ýmsar lýðfræðilegar breytingar eru megin orsakavaldar aukins kostnaðar vegna öldrunar, þó ýmsir þættir hafi vegið þar á móti, m.a. þær endurbætur sem gerðar voru almennt á lífeyriskerfum EB-landanna á árunum 1980 til 1990, sem fólust m.a. í því að tengja hækkun lífeyris við verðlagsþróun. Aukin atvinnuþátttaka eldra fólks mun líka minnka lífeyrisbyrðina. Ýmsir önnur veigamikil atriði en aukning kostnaðar vegna lífeyris voru tekin til skoðunar í umræddri skýrslu, þ.á.m. kostnaður við heilsugæslu og við langtímaumönnun eldra fólks, auk mögulegra þátta sem þyrfti að skoða í sambandi við langtímaspá um varanleg útgjöld hins opinbera vegna öldrunarmála allt til ársins 2050.