Hjálparstofnun kirkjunnar í Noregi fer fram á að stjórnvöld þar í landi rannsaki þegar í stað hvort eitthvað sé hæft í því að olíufélög, sem eftirlaunasjóður norska ríkisins, Olíusjóðurinn svokallaði, á eignarhluti í, tengist stríðsglæpum í Afríkuríkinu Súdan á árunum 1997 til 2003. Stofnunin beinir því jafnframt til ríkisstjórna Svíþjóðar, Malasíu og Austurríkis að kanna það sem að þeim snýr í málinu.
Olíufélögin sem um ræðir eru sænsk, austurrísk og malasísk og tóku þátt í sameiginlegu verkefni í olíuiðnaði í Súdan í gegnum félagið Lundin Consortium. Barátta um ákveðið olíuleitarsvæði kom mjög við sögu í blóðugri borgarastyrjöld í suðurhluta Súdans 1997-2003. Talið er að um 10.000 manns hafi fallið og hátt í 200.000 manns verið hraktir frá heimkynnum sínum.
Í nýútkominni skýrslu er Lundin Consortium bendlað beint við stríðsglæpi í Súdan og til þeirrar skýrslu vísar hjálparstofnun kirkjunnar í Noregi. Atle Sommerfelt, framkvæmastjóri stofnunarinnar, segir að olíufélögin hafi flutt með sér stórfelldan olíugróða frá Súdan og ekki látið fórnarlömb átakanna fá svo mikið sem eina krónu í bætur.
Olíufélögin neita öllum ásökunum og segja að í skýrslunni komi ekkert nýtt fram. Þau hafi frekar stuðlað að friði á svæðinu en að kynda undir ófriðarbáli.
Norski Olíusjóðurinn hefur ákveðnar og skýrar siðferðisreglur í starfsemi sinni. Ákvarðanir hans hafa jafnan veruleg áhrif á aðra umsvifamikla fjárfesta á heimsvísu. Sérstakt siðaráð norska ríkisins kannar Súdansmálið en tekur fram að oft sé erfitt að tengja tiltekin fyrirtæki við brot á starfsreglum.
Stuðst við frásögn NTB-fréttastofunnar