Nefnd á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða um örorkumál hefur skilað skýrslu sinni. Fram kemur í skýrslunni að í Bandaríkjunum fer helmingur þeirra sem eru fjarverandi frá vinnumarkaði lengur en 8 vikur ekki aftur út á vinnumarkaðinn og 85% þeirra sem eru frá vinnu í hálft ár eða lengur fara ekki aftur út á vinnumarkaðinn. Nefndin leggur því mikla áherslu á að gripið verði nógu snemma til endurhæfingarúræða gagnvart þeim einstaklingum sem hverfa af vinnumarkaði, annað hvort vegna veikinda eða atvinnuleysis.
Ljóst er að oft er orðið um seinan eða mjög erfitt að endurhæfa einstaklinga sem sækja um örorkulífeyri allt að ári eftir brotthvarf af vinnumarkaði. Þetta er ferli sem helst þarf að hefjast áður en einstaklingarnir sækja um örorku hjá lífeyrissjóðunum og því þarf náið samráð lífeyrissjóðanna við atvinnurekendur og sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna til þess að bregðast fljótt við slíkum aðstæðum.
Fram kemur í skýrslunni að nefndin bindur vonir við störf nefndar forsætisráðherra um örorkumál og vill í því sambandi vekja athygli á nauðsyn þess að endurskipuleggja og styrkja starfsendurhæfingu hér á landi, m.a. með því að auka framboð á henni og með sveigjanlegu skipulagi sem bregðist fljótt við breytingum á vinnumarkaði. Ljóst sé að grípa þurfi mjög snemma inn með markvissum aðgerðum gagnvart einstaklingum sem hverfa af vinnumarkaði, annað hvort vegna veikinda eða slysa eða vegna atvinnuleysis. Þá þurfi að vinna að skilvirkari og vandaðri vinnubrögðum við undirbúning örorkulífeyrisúrskurða, en nokkuð hefur borið á að úrskurðir hafa verið ótraustir hvað varðar gerð læknisvottorða.