Stórt skref í átt að bærilegri tilveru fyrir skuldugar fjölskyldur og landsmenn alla

Landssamtök lífeyrissjóða fagna þeim skrefum sem stigin eru með fyrirliggjandi viljayfirlýsingu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna en minnir jafnframt á að hver og einn lífeyrissjóður á að sjálfsögðu síðasta orðið um aðild sína að samkomulagi sem gert verður á grundvelli yfirlýsingarinnar. Miðað er við að formsatriðum samkomulagsins ljúki fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til þess.

Viljayfirlýsingin er samvinnuverkefni stjórnvalda, fjármálastofnana, lífeyrissjóða og Íbúðarlánasjóðs. Markmiðið er að skapa bærilegri aðstæður fyrir fólk og atvinnulíf og af sjálfu leiðir að slíkt skiptir líka miklu máli fyrir lífeyrissjóði landsmanna. Fulltrúar lífeyrissjóða hafa jafnframt átt í viðræðum við stjórnvöld um tilteknar framkvæmdir í samgöngumálum, sem komnar eru vel á veg. Áður hafa lífeyrissjóðirnir stofnað Framkvæmdasjóð Íslands til þess að fjárfesta í fyrirtækjum með vænlegan rekstrargrundvöll og undirritað viljayfirlýsingu við ríkið um undirbúning að framkvæmdum við nýjan Landspítala.   
Sjá hér viljayfirlýsinguna.

 

  • Þegar á heildarmyndina er litið blasir við að lífeyrissjóðirnir eru virkir þátttakendur í því að styrkja stoðir samfélagsins á erfiðum tímum, hvort heldur litið er til fólks, fyrirtækja eða innviða samfélagsins. 

Í opinberri umræðu í aðdraganda fyrirliggjandi viljayfirlýsingar hefur mátt sjá og heyra að það hafi „strandað á lífeyrissjóðum“ að áfangi dagsins náðist ekki fyrr en raun ber vitni. Þetta má til sanns vegar færa í ákveðnum skilningi en skýrist af þeirri einföldu staðreynd að lífeyrissjóðir eru eign sjóðfélaga, hvort sem þeir skulda mikið, lítið eða ekki neitt.

 

  • Stjórnum og stjórnendum sjóðanna ber að gæta hagsmuna sjóðfélaga sinna og umfram allt að virða lög. Það er einmitt kjarni máls hvað varðar meintar tafir af völdum lífeyrissjóða í aðdraganda viljayfirlýsingarinnar.
  • Lög heimila lífeyrissjóðum alls ekki að samþykkja upphaflegar hugmyndir stjórnvalda um að fella niður skuldir sjóðfélaga, að gefa með öðrum orðum eftir innheimtanlegar kröfur að óbreyttum lögum.
  • Stjórnarmenn lífeyrissjóða gætu bakað sér ábyrgð með því að mismuna umbjóðendum sínum á þann hátt að skuldlausir sjóðfélagar þyrftu að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda í þágu skuldugra sjóðfélaga í sama lífeyrissjóði.

 

Aðgerðir í þágu skuldugra, eins og gert er nú ráð fyrir þeim í viljayfirlýsingunni, standast lög og kalla ekki á skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Fulltrúar lífeyrissjóða vildu fá vissu fyrir því að þeim væri fært að samþykkja aðild að viljayfirlýsingunni í núverandi mynd. Slíka staðfestingu fengu þeir fyrst hjá Fjármálaeftirlitinu síðastliðinn miðvikudag, 1. desember.

 

Engu að síður liggur fyrir að í eignasafni lífeyrissjóða eru óinnheimtanlegar kröfur sem verður að afskrifa að einhverju leyti án tillits til samkomulagsins sem viljayfirlýsingin kveður á um.

 

Kjarnaatriði viljayfirlýsingarinnar

 

  • Eigendum íbúðarhúsnæðis, þar sem áhvílandi skuldir eru umfram 110% af verðmæti eignarinnar, verður boðið með tilteknum skilyrðum að færa skuldirnar niður í 110% af verðmæti eignarinnar (sbr. „aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila“ í yfirlýsingunni).
  • Þannig má afskrifa allt að 4 milljónir króna hjá einstaklingi og 7 milljónir króna hjá hjónum, sambýlisfólki eða einstæðum foreldrum.
  • Kveðið er á um heimild til að afskrifa enn meira ef svo ber undir, allt að 15 milljónir króna hjá einstaklingi en allt að 30 milljónir króna hjá hjónum, sambýlisfólki eða einstæðum foreldrum. Skilyrði slíks er eignakönnun og mat á greiðslugetu í samræmi við samkomulag um sértæka skuldaaðlögun.
  • Skilyrt er að greiðslubyrði vegna íbúðarlána viðkomandi skuldara sé yfir 20% af tekjum fyrir skatta á árinu 2010.
  • Þessi úrræði standa skuldurum til boða til 1. júlí 2011 og eiga að geta gengið hratt fyrir sig. Framkvæmd þeirra er hugsuð sem nokkurs konar „hraðferð“.

 

  • Í sérstakri skuldaaðlögun eru lán færð niður í 100% af verðmæti fasteignar.

 

  • Þegar greiðslugeta lántaka er metin getur hún legið á bilinu 70-100% af verðmæti fasteignarinnar. Ráði skuldari ekki við að greiða af öllu láninu fer það sem út af stendur „í bið“ í þrjú ár, óverðtryggt og vaxtalaust.
  • Ef skuldari getur ekki greitt af biðláninu sínu að þremur árum liðnum verður leitað annarra leiða, sem getur verið að framlengja skuldaaðlögun eða að skuldari selji eignina og komist þannig undan skuldaklyfjunum.

 

  • „Vettvangur kröfuhafa“ verður settur á laggir til að flýta fyrir skuldauppgjöri og einfalda úrlausn flókinna mála. Þar verða fulltrúar fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs.

 

  • Boðaðar breytingar á vaxtabótakerfinu eru í raun forsenda þess að aðgerðirnar skili því sem þær eiga að skila.
    • Stuðlað verður að því að fólk með lágar tekjur og miðlungstekjur og miklar skuldir njóti hlutfallslega meiri vaxtabóta hér eftir en hingað til.
    • Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því nýju úrrræði, tímabundinni niðurgreiðslu vaxta í gegnum vaxtabótakerfið. Ráðstafað verður alls 6 milljörðum króna vegna þessa á árunum 2011 og 2012.

 

  • „Lífeyrissjóðir leitist við að greiða götu félagslegra úrræða í húsnæðismálum með kaupum á sérstökum flokki íbúðabréfa sem Íbúðalánasjóður mun bjóða út á lægstu mögulegum vöxtum. Fjárhæð útboðsins mun ráðast af stefnumörkun nefndar félags- og tryggingamálaráðherra og mati nefndarinnar á fjárþörf. Andvirði bréfanna yrði notað til að endurfjármagna útistandandi félagsleg leiguíbúðalán, fjármagna ný slík lán og fjármagna búseturéttarkerfi.“