Lykillinn að Almenna lífeyrissjóðnum var kynntur á ársfundi sjóðsins sem haldinn var á Hótel Nordica s.l. fimmtudag. Lykillinn er reiknivél fyrir lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar geta tengst í gegnum heimasíðu sjóðsins. Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins segir Lykilinn fela í sér byltingu í upplýsingagjöf til sjóðfélaga og að með honum skapi Almenni lífeyrissjóðurinn sér skýra sérstöðu meðal lífeyrissjóða hér á landi. Með Lyklinum geta sjóðfélagar með skjótum og einföldum hætti séð stöðu sína á hverjum tíma, áætluð eftirlaun og áfallalífeyri í hlutfalli við laun.
Lykillinn birtir mat sjóðsins á stöðu einstaka sjóðfélaga ásamt ábendingum um hvernig viðkomandi getur bætt stöðu sína ef talin er þörf á því. Þá gerir Lykillinn sjóðfélögum kleift að meta hvort núverandi lífeyrissparnaður nægi til að tryggja þeim ásættanleg eftirlaun og hvort þeir séu nógu vel varðir fyrir hugsanlegum tekjumissi vegna örorku. Ennfremur sýnir Lykillinn ráðgjöf um ávöxtunarleiðir fyrir lífeyrissparnað. Í Lyklinum eru notuð umferðaljós til að sýna hvort staða sjóðfélaga er ásættanleg eða ekki. Ef sjóðfélagi er á rauðu eða gulu ljósi bendir Lykillinn á leiðir til að bæta stöðuna svo komast megi á grænt ljós.
Allir sjóðfélagar munu fá send aðgangsorð að Lyklinum og USB lykil með kynningarmyndbandi með upplýsingum og ráðgjöf. Gunnar Baldvinsson segir að Lykillinn og myndbandið sé metnaðarfyllsta tilraun lífeyrissjóðs til að upplýsa sjóðfélaga um núverandi stöðu og leiðir til að tryggja sér ásættanleg eftirlaun eða áfallalífeyri við tekjumissi.
Nánari upplýsingar um Lykilinn má lesa hér.
Skipulagsbreyting frá 2006 reynist vel
Á aðalfundinum kom fram að breyting sem gerð var á fyrirkomulagi samtryggingasjóðs Almenna lífeyrissjóðsins árið 2006 hefur reynst vel í því mikla umróti sem verið hefur á fjármálamörkuðum undanfarna mánuði. Þá var tekin upp mismunandi fjárfestingarstefna fyrir sjóðfélaga annars vegar og lífeyrisþega hins vegar en hagsmunir þessara tveggja hópa geta verið ólíkir þegar kemur að ávöxtun lífeyrissparnaðar. Sjóðfélagar sem eru að safna réttindum til síðari tíma notkunar vilja háa ávöxtun og þola sveiflur í ávöxtun framan af starfsævi. Þeir sem byrjaðir eru að fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum leggja hins vegar áherslu á stöðuga ávöxtun sem lækkar ekki vegna tímabundinna sveiflna á fjármálamörkuðum. Breytingin frá 2006 sameinar þessi ólíku sjónarmið en þá var stigið það skref að ávaxta eftirlaunasparnað samtryggingarsjóðsins eins og séreignasjóðina samkvæmt Ævileiðinni þar sem ávöxtunarleiðir taka mið af aldri sjóðfélaga. Útreikningar sýna að ávöxtun samkvæmt Ævileiðinni hefði skilað hærri ávöxtun og minna flökti á liðnum árum en verðbréfasafn með fasta fjárfestingarstefnu.
Árið 2006 var samtryggingasjóðnum jafnframt skipt í þrjár deildir. Tryggingadeild sem greiðir örorku, maka- og barnalífeyri, eftirlaunadeild sem ávaxtar fé sjóðfélaga til að tryggja þeim ellilífeyrisgreiðslur til æviloka og lífeyrisdeild sem greiðir ellilífeyri frá 60-70 ára aldri til æviloka. Með mismunandi fjárfestingastefnu fyrir þá sem eru að greiða í sjóðinn og hinna sem eru byrjaðir að fá greiddan lífeyri úr sjóðnum minnka líkur á að skerða þurfi réttindi lífeyrisþega vegna óhagstæðrar ávöxtunar enda verður verðbréfasafn lífeyrisdeildar að mestu í skuldabréfum. Breytt fyrirkomulag er því til þess fallið að auka samheldni innan sjóðsins og koma í veg fyrir deilur milli ólíkra aldurshópa.