Sýnt hefur verið fram á sterk tengsl nýgengis örorku og atvinnuleysisstigs. Dregið hefur úr atvinnuleysi undanfarið og því má búast við að nýgengi örorku hafi hætt að aukast eða hafi jafnvel minnkað. Þessar upplýsingar koma fram hjá Sigurði Thorlacius, tryggingayfirlækni.
Hjá konum fjölgaði nýjum öryrkjum hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 2002 til 2003 um 28% og frá 2003 til 2004 um 21%, sem er langt umfram fjölgun þjóðarinnar á sama tíma. Frá 2004 til 2005 fjölgaði öryrkjum hins vegar aðeins um 9% og örorkulífeyrisþegum um 6%.
Hjá körlum fjölgaði nýjum öryrkjum hjá TR frá 2002 til 2003 um 43% og frá 2003 til 2004 um 37%. Frá 2004 til 2005 fækkaði nýjum öryrkjum í hópi karla hins vegar um 7% og örorkulífeyrisþegum um 13%.
Á þessu ári hefur þannig dregið úr fjölgun öryrkja hjá TR á meðal kvenna og fækkað nýjum öryrkjum í hópi karla miðað við síðasta ár. Á sama tíma hefur atvinnuástand farið batnandi. Þetta staðfestir þau tengsl á milli nýgengis örorku og umfangs atvinnuleysis sem áður hefur verið sýnt fram á.
Þessar niðurstöður eru í heildina í góðu samræmi við tölur í skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuástand í júlí 2005. Þar kemur fram að atvinnulausum hafi í júlí 2005 fækkað um 33% frá júlí 2004 og að mun meira hafi dregið úr atvinnuleysi á meðal karla en kvenna. Jafnframt kemur fram að atvinnuleysi hafi hjá körlum minnkað hlutfallslega meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, en hjá konum hafi það minnkað ámóta mikið á báðum svæðunum. Hins vegar hefur hlutfall ungs atvinnulauss fólks minnkað, á meðan nýgengi örorku hefur aukist hjá yngri körlum. Þetta er eitthvað sem vert er að skoða nánar og þá sérstaklega með tilliti til heppilegra starfsendur-hæfingarúrræða.
Í heildina styrkja þessar niðurstöður þá ályktun að sterk tengsl séu á milli nýgengis örorku og atvinnuleysisstigs hér á landi og að ekki séu skýr mörk á milli heilsubrests og atvinnuleysis.