Sterk fylgni er á milli örorku og atvinnuleysis hjá Tryggingastofnun.

Nýgengi örorku var tiltölulega hátt á árunum 1992 til 1995, var lægra á árunum 1996 til 2002 og hækkaði síðan verulega á árinu 2003. Sterk fylgni er hjá báðum kynjum á milli nýgengis örorku og umfangs atvinnuleysis á landinu á því tímabili sem rannsóknin nær til.  Þessar upplýsingar koma fram í könnun Sigurðar Thorlacius, Sigurjóns B. Stefánssonar og Stefán Ólafssonar í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Kannað var áhrif atvinnuleysis og gildistöku örorkumatsstaðals á fjölda öryrkja á Íslandi með því að skoða breytingar á nýgengi örorku og umfangi atvinnuleysis ár frá ári á tímabilinu frá 1992 til 2003.

 Notaðar voru upplýsingar um kyn, aldur og örorkustig þeirra sem metnir voru í fyrsta sinn til örorku vegna lífeyristrygginga á Íslandi ár hvert á tímabilinu 1992 til 2003 og upplýsingar um fjölda Íslendinga á aldrinum 16-66 ára á sama tíma til að reikna nýgengi örorku. Niðurstöðurnar voru bornar saman við upplýsingar um umfang atvinnuleysis hér á landi.

 Nýgengi örorku var tiltölulega hátt á árunum 1992 til 1995, var lægra á árunum 1996 til 2002 og hækkaði síðan verulega á árinu 2003. Sterk fylgni er hjá báðum kynjum á milli nýgengis örorku og umfangs atvinnuleysis á landinu á því tímabili sem rannsóknin nær til. Nokkur aukning varð á nýgengi örorku hjá konum frá 1999 til 2000, sem féll í tíma saman við gildistöku nýs örorkumatsstaðals í september 1999, en á sama tíma varð hins vegar sambærileg aukning á atvinnuleysi.

Ekki verður fullyrt að gildistaka örorku­matsstaðals haustið 1999 hafi orðið til þess að auka nýgengi örorku. Fjölgun öryrkja á Íslandi undanfarið hefur sterk tölfræðileg tengsl við breytingar á vinnu­markaði, einkum aukið atvinnuleysi og aukið álag á vinnustað.

 


Sjá nánar greinina í Læknablaðinu.