Lífeyrissjóður sjómanna var s.l. fimmtuadg sýknaður í Hæstarétti af öllum kröfum stefnanda, sem taldi að sjóðnum hefði verið óheimilt að skerða réttindi hans til örorku með reglugerð sem gildi tók í september 1994, en orkutap sjóðfélagans varð í nóvember 1994.
Hæstiréttur taldi hins vegar að skerðingin stæðist þar sem réttindi sjóðfélagans voru ekki orðin virk þegar reglugerð lífeyrisjóðsins tók gildi og að stjórn sjóðsins hefði verið skylt að gera ráðstafanir til að rétta fjárhag hans af. Rétturinn taldi að skerðingin hefði verið reist á almennum grundvelli og að jafnræðis hefði verið nægjanlega gætt.Sjómaðurinn H fékk heilablóðfall í nóvember 1994, en þá höfðu tekið gildi lög nr. 94/1994 um Lífeyrissjóð sjómanna, sem afnámu lög nr. 49/1974 um sama efni, og ný reglugerð um Lífeyrissjóð sjómanna, þar sem greiðslur voru skertar frá því sem áður hafði verið. H taldi að óheimilt hefði verið að skerða réttindi sín með reglugerðinni og krafði lífeyrissjóðinn um greiðslur samkvæmt lögum nr. 49/1974. Talið var, að ekki yrði komist hjá því að líta til þess að lífeyrisréttindi H hefðu ekki verið orðin virk þegar þau voru skert með heimild í lögum nr. 94/1994, en heimild löggjafans væri mun þrengri til að skerða virk lífeyrisréttindi en þau, sem einungis væru væntanleg þegar skerðingin öðlaðist gildi. Ekki lægi annað fyrir en skerðing allra óvirkra lífeyrisréttinda sjóðfélaga, svo sem hún birtist í reglugerðinni, hefði verið reist á almennum grundvelli og jafnræðis milli sjóðfélaga hefði nægjanlega verið gætt. Þótti skerðingin hafa verið heimil án þess að bætur kæmu fyrir. Var lífeyrissjóðurinn því sýknaður af kröfum H.