Starfsgreinasambandið: Lífeyrisréttindi verkafólks verði samræmd við réttindi í A-deild LSR.

Starfsgreinasamband Íslands og Flóabandalagið telja óhjákvæmilegt að samningar Alþýðusambands Íslands og aðildarfélaga þess við Samtök atvinnulífsins og ríkið um  lífeyrissmál verði teknir til endurskoðunar með það að markmiði að lífeyrisréttindi alls launafólks verði samræmd við lífeyrisréttindi í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. 

Endurskoðunin feli a.m.k. í sér;

  •  að lágmarksávinnsla lífeyris hækki úr 1,4% í 1,90% á ári,
  • að mögulegt upphaf lífeyristöku verði við 60 ára aldur,
  • ábyrgð launagreiðanda á umsömdum lágmarkslífeyrisréttindum með því að iðgjaldahluti launagreiðanda taki breytingum í kjölfar árlegrar endurskoðunar.
  •  Launagreiðendur greiði þó að lágmarki 6% af launum þeim er sjóðfélagar taka hjá þeim. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi launagreiðenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum viðkomandi skyldutryggingarsjóðs skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar.
  • Við ákvörðun á greiðslum launagreiðenda umfram 6% af launum sjóðfélaga ráði það sjónarmið að hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda séu á hverjum tíma jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miða við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur til.