Starfsendurhæfing getur komið í veg fyrir örorku.

Árangur af starfsendurhæfingu á vegum Tryggingastofnunar ríksins er svipaður og af starfsendurhæfingu á vegum Tryggingastofnana í Svíþjóð. Árangurinn sýnir að væntingar um að starfsendurhæfing geti komið í veg fyrir örorku hafa staðist.

Efniviður og aðferðir: Læknar TR vísuðu einstaklingum sem verið höfðu óvinnufærir nokkra mánuði vegna sjúkdóms til þverfaglegs teymis, til mats á möguleikum á endurhæfingu og ef mælt væri með henni, hvernig henni yrði best háttað. Aflað var upplýsinga úr skýrslum endurhæfingarmatsteymisins um sjúkdómsástand, kyn, aldur, hjúskaparstöðu, fjölda barna á framfæri og menntunarstig þeirra einstaklinga sem metnir voru á árinu 2000. Upplýsingarnar um hjúskaparstöðu, fjölda barna á framfæri og menntunarstig voru bornar saman við upplýsingar um þjóðina frá sama ári (svör við Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um hjúskaparstöðu og barnafjölda og upplýsingar frá Hagstofu Íslands um menntunarstig). Upplýsingar um starfshæfni og vinnu þátttakenda eftir endurhæfingu voru fengnar með símakönnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi. Fengnar voru upplýsingar úr gagnasafni TR um hvort þeir sem metnir höfðu verið af endurhæfingarmatsteymi á árinu 2000 voru á bótum frá TR einu til tveimur árum eftir matið. Til samanburðar var skoðuð bótastaða einstaklinga sem fengið höfðu endurhæfingarlífeyri áður en starfsendurhæfing á vegum TR hófst. Niðurstöður: Af þeim 109 sem metnir voru af endurhæfingarmatsteymi á árinu 2000 voru konur í talsverðum meirihluta (um helmingi fleiri en karlar). Meðalaldur matsþega var 35 ár. Læknisfræðilegar forsendur tilvísana til matsteymis voru fyrst og fremst stoðkerfisraskanir og geðraskanir. Matsþegar voru í meiri mæli ógiftir eða fráskildir, höfðu fleiri börn á framfæri og lægra menntunarstig en Íslendingar almennt. Fjörutíu matsþegum var vísað í atvinnulega endurhæfingu á Reykjalundi, 19 í tölvunámskeið í Hringsjá og 15 í fullt starfsnám í Hringsjá, en 46 fóru í aðra meðferð eða nám. Tæplega þrír fjórðu þátttakenda í símakönnun Félagsvísindastofnunar töldu starfshæfni sína hafa aukist, en innan við helmingur þátttakanda taldi sig þó vinnufæran (43,6%) og hafði stundað einhverja vinnu (46,9%). Auk þess var nær fjórðungur (22,8%) þátttakenda í námi og er líklegt að hluti þeirra skili sér út á vinnumarkaðinn að því loknu. Einu til tæplega tveimur árum eftir að mati lauk fengu 44 af 109 (40,4%) örorkubætur (örorkulífeyri eða örorkustyrk) frá TR og jafnmargir fengu engar bætur frá TR, en í samanburðarhópi fólks sem fengið hafði endurhæfingarlífeyri áður en starfsendurhæfing á vegum TR hófst fengu 97 af 119 (81,5%) örorkubætur, en 21 (17,7%) engar bætur frá TR hálfu öðru ári eftir upphaf lífeyrisgreiðslu. Ályktanir: Árangur af starfsendurhæfingu á vegum TR er svipaður og af starfsendurhæfingu á vegum Tryggingastofnana í Svíþjóð. Árangurinn sýnir að væntingar um að starfsendurhæfing geti komið í veg fyrir örorku hafa staðist.


Sjá nánar Læknablaðið 2002 Bls. 407-411.