Hlutafélagið ALMC, sem áður hét Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki, var í dag dæmt af Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Stapa lífeyrissjóði rúma fimm milljarða íslenskra króna vegna skuldaskjala sem lífeyrissjóðurinn átti hjá Straumi-Burðarási haustið 2008. Málið varðar kröfur, sem lýst var of seint í bú bankans vegna mistaka lögmannsstofu. Taldi Stapi að krafan ætti að halda gildi sínu þar sem Straumur-Burðarás fór ekki í gjaldþrot, heldur náði nauðasamningum við kröfuhafa. Féllst héraðsdómurinn á þessa kröfu Stapa.
Í dómnum kemur fram að ekki er unnt að líta svo á að um nauðsamning stefnda gildi aðrar reglur en um nauðasamninga sem gerðir eru samkvæmt gjaldþrotalaga. "Nauðasamningur sem gerður er eftir að félag hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta leiðir til þess að fjárhæð krafna og skilmálar breytast eftir því sem samningurinn mælir fyrir um. Gjaldþrotaskiptunum er hætt og stjórn félagsins tekur aftur við forræði á hagsmunum þess og skuldbindingum. Kröfuhafi sem komst ekki að við skiptin vegna þess að hann lýsti ekki kröfu sinni, getur krafist greiðslu kröfu sinnar, en verður að sæta lækkun hennar í samræmi við skilmála nauðasamningsins," segir í dómnum.
Þá kemur fram að sá stefndi, ALMC, skuli greiða stefnanda málskostnað, að fjárhæð 1.600.000 krónur. Stapi þurfti þó að sæta lækkun kröfu sinnar í samræmi við skilmála nauðasamningsins.