S.l. föstudag var sameining Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyirissjóðs Norðurlands staðfest á ársfundum sjóðanna á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Sameinaður sjóður mun heita Stapi, lífeyrissjóður. Sameining sjóðanna tekur formlega gildi að fengnu samþykki Fjáramálaeftirlitsins.
Sameinaður sjóður er með hreina eign til greiðslu lífeyris um 84 milljarða króna skv. ársreikningum sjóðanna tveggja og með um 21.000 lífeyrisþega. Heildariðgjöld ársins 2006 voru 4,7 milljarðar króna. Sjóðirnir greiddu samtals um 1.918 milljónir króna í lífeyri í fyrra og voru lífeyrisþegar tæplega 6.000.
Starfssvæði sjóðsins nær frá Hrútafirði í vestri að Skeiðará í austri. Sjóðurinn nær þannig til allra byggðakjarna á Norður- og Austurlandi. Sjóðfélagar eru almennt launafólk á þessu svæði, sem kemur úr ýmsum atvinnugreinum, þ.m.t. sjávarútvegi, verslun, þjónustu, iðnaði o.fl.
Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar Stapa, lífeyrissjóðs var Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, kjörinn stjórnarformaður og Aðalsteinn Ingólfsson, Höfn í Hornafirði, varaformaður stjórnar. Í stjórn sjóðsins sitja Aðalsteinn Ingólfsson, Anna María Kristinsdóttir, Ásgerður Pálsdóttir, Björn Snæbjörnsson, Sigurður Hólm Freysson og Þorbjörg Þorfinnsdóttir
Framkvæmdastjóri sjóðsins er Kári Arnór Kárason.