Framkvæmdastjóri Stafa sendi Morgunblaðinu athugasemd vegna fréttar um viðbrögð sjóðsins við yfirtökutilboði franska fyrirtækisins Lur Berri í matvælafyrirtækið Alfesca. Þar eru missagnir sem hlutu að kalla á viðbrögð af hálfu Stafa.
Í athugasemdinni segir að Morgunblaðið hafi ,,sterklega gefið í skyn að Stafir hafi verið beittir þrýstingi í málinu vegna þess að Samskip greiði meirihluta iðgjalda (!) í lífeyrissjóðinn en eigandi Samskipa, Ólafur Ólafsson, er jafnframt í þeim hópi sem stendur að eigendasamkomulagi í Alfesca og þar með yfirtökutilboðinu umrædda."
1. Stafir lífeyrissjóðir töldu og telja enn að yfirtökutilboðið, 4,5 krónur á hlut, sé of lágt. Ráðamenn sjóðsins reyndu ítrekað að hækka verðið og ræddu málið við fulltrúa Lur Berri Iceland en án árangurs. Frekara andóf af hálfu Stafa hefði þjónað takmörkuðum tilgangi. Það var viðskiptalegt mat, úr því sem komið var, að réttara væri að falla frá andstöðu við tilboð Lur Berri en að eiga hlut í óskráðu félagi. Sjóðstjórn sætti engum þrýstingi til að komast að þeirri niðurstöðu.
2. Í Morgunblaðsfréttinni er fullyrt að Samskip standi að 55% allra iðgjalda Stafa lífeyrissjóðs, sem vissulega væri saga til næsta bæjar ef fótur væri fyrir henni! Í ársskýrslu Stafa fyrir árið 2008 kemur skýrt fram að hlutur samgöngufyrirtækja á sjó í iðgjöldum hafi verið 6%. Einstök fyrirtæki eru ekki nefnd til sögu en það er ráðgáta hvernig Morgunblaðinu tekst að koma hlut Samskipa í iðgjöldum Stafa upp í 55% þegar öll atvinnugreinin sem þetta fyrirtækið telst til ber einungis 6% af heildariðgjöldum! Hins vegar hljóma 55% óneitanlega betur en 6% í samhengi fréttarinnar um meintan þrýsting en hafa skal það sem sannara reynist, bæði í blaðamennsku og viðskiptum.