Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur telur að eignir lífeyrissjóða landsins rýrni um 15-25% í því fárviðri sem gengur yfir alþjóðlega fjármálamarkaði og íslenskt samfélag. Þetta kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöld. Benedikt dró í fáum orðum upp skýra heildarmynd af stöðu mála í augnablikinu varðandi eignir lífeyrissjóðanna. Hann sagði fjóra þætti í hættu eða óvissu í eignasafni sjóðanna.
Innlend hlutabréf, um 9% af heildareignum lífeyrissjóðanna í lok ágúst 2008. Hlutabréfavísitalan hefur lækkað um að minnsta kosti 80% í kjölfar þess að bankarnir þrír urðu gjaldþrota. Hlutabréfasafn lífeyrissjóðanna er því í hættu.
Fyrirtækjabréf, um 10% af heildareignum sjóðanna. Sum fyrirtæki sem skulda lífeyrissjóðunum eiga í vanda, önnur ekki.
Skuldabréf banka, um 8% af heildareignum sjóðanna. Óvissa ríkir um þennan hlut eignasafnsins. Benedikt kvaðst vita til þess að unnið væri í málinu varðandi hugsanlegar tryggingar af hálfu ríkisins. Kæmi slík ríkistrygging við sögu myndi hún styrkja stöðu lífeyrissjóðanna verulega.
Verðbréfasjóðir, um 9% af heildareignum sjóðanna. Þar ríkir mikil óvissa. Benedikt rifjaði upp að viðskiptaráðherra hefði á miðvikudag boðað að litið yrði til verðbréfasjóðanna og þeir hugsanlega styrktir með einhverjum hætti en meira væri ekki vitað um málið.
Benedikt Jóhannesson var í framhaldinu beðinn um að meta heildarrýrnun eigna lífeyrissjóðanna í hamförunum. Hann svaraði því til að rýrnunin gæti verið á bilinu 15-20%, nokkuð mismunandi eftir sjóðum. Ef bankabréfin töpuðust líka gæti eignarýrnunin hins vegar orðið 20-25%. Hann tók jafnframt fram að ef ákveðið yrði í lok ársins að skerða lífeyrisréttindi vegna eignatjónsins myndi Tryggingastofnun ríkisins bera um helming skaðans.
Tölurnar setti Benedikt að síðustu í samhengi:
· Eignarýrnun um 15-10% þýðir að eignir lífeyrissjóðanna yrðu álíka og í árslok 2006.
· Eignarýrnun um 20-25% þýðir að eignir lífeyrissjóðanna yrðu álíka og um mitt ár 2005.
Hann benti í framhaldinu á að þó allt færi á versta veg yrði lífeyriskerfið okkar áfram stærra en sem nemur landsframleiðslu á Íslandi, sem væri nánast einsdæmi í veröldinni. Þá gat Benedikt þess að í kjölfar lækkunar á lífeyrisgreiðslum sjóðanna mundu bætur almannatrygginga í mörgum tilvikum hækka.