Staða lífeyrissjóðanna nálgast það sem hún var fyrir hrun bankanna.

Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam 1.763 ma. kr. í lok nóvember s.l. og hafði aukist um 18,8 ma.kr. frá fyrra mánuði.samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands.  Innlend verðbréfaeign jókst um 21,5 ma.kr. og erlend verðbréfaeign um 3,1 ma.kr. Sjóðir og bankainnistæður lækkuðu hins vegar um 6,5 ma.kr. í mánuðinum. Af einstökum eignaliðum munar mestu um 10,3 ma.kr. hækkun á íbúðabréfaeign sjóðanna. 
Í lok nóvember 2009 hefur hrein eign lífeyrissjóðanna hækkað um 140 ma.kr. frá sama tíma fyrir ári sem jafngildir hækkun upp á 8,6% að nafnvirði. Hrein eign lífeyrissjóðanna er nú smá saman að nálgast það sem hún var fyrir hrun bankanna. Þannig var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok nóvember 7,9 mö.kr. lægri en hún var í lok september 2008 sem jafngildir 0,4% lækkun að nafnvirði. Lækkunin að raunvirði á þessu tímabili er þó mun meiri, eða 11,8%.

Nokkur óvissa er um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna og ber þess vegna að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirrvara þar til ársuppgjör lífeyrissjóðanna hefur farið fram. Enn liggur ekki fyrir hver raunávöxtun lífeyrissjóðanna verður vegna síðasta árs, en líkur er á því að verði jákvæð. 

Í Morgunkorni Íslandsbanka er þess getið að stærsta áfallið fyrir sjóðina í kjölfar bankahrunsins hafi verið af innlendri hlutabréfaeign. Í lok september 2008 áttu lífeyrissjóðirnir 150,7 ma.kr. í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum en mánuði síðar var sú eign komin niður í 41,6 ma.kr. Staða þeirra á innlendum hlutabréfamörkuðum er enn sáralítil og nú í lok nóvember síðastliðinn var eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum 36,6 ma.kr. sem svarar til 2,1% af hreinni eign þeirra.