Á fræðslufundi Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir skömmu var m.a. fjallað um EES-samninginn og stöðu lífeyrissjóðanna gagnvart honum, svo og um almannatryggingareglur EES-samningsins sem taka til lífeyrissjóðanna.
Framsögu höfðu þau Hildur Sverrisdóttir, lögfræðingur í alþjóðadeild Tryggingastofnunar ríkisins og Vilborg Hauksdóttir, lögfræðingur í heilbriðgis- og tryggingamálaráðuneytinu. Samkvæmt EES-samningnum eru almannatryggingar skilgreindar mjög víðtækt. Hvað varðar Ísland nær skilgreiningin bæði til almannatryggingana og til lífeyrissjóðanna. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að fella lífeyrissjóðina undir gildissvið ESB-reglugerðar nr. 1408/71 um almannatryggingar byggðist á tilteknum rökum. Í fyrsta lagi var pólitískur vilji á þeim tíma sem EES-samningaviðræðurnar fóru fram til að afnema sem flestar hindanir á frjálsi för fólks milli landa. Í öðru lagi var vísir að venju á þessu sviði þar sem Norðurlandsamningurinn um félagslegt öryggi tók til lífeyrissjóða og í þriðja lagi tekur ESB-reglugerðin til almannatryggingakerfa án tillits til þess, hvernig skipulag þeirra er. Í fréttum á heimasíðu LL verður vikið síðar að þeim almannatrygginareglum EES-samningsins sem taka til lífeyrissjóðanna og hvað ber helst að hafa í huga við afgreiðslu lífeyrismála milli landa innan EES.