Staða lífeyrissjóðanna er traust, þrátt fyrir slaka ávöxtun á síðasta ári.

"Lífeyrissjóðirnir eru langtímafjárfestar, sem byggja á sjóðsöfnun og mismunandi fjárfestingarárangri milli ára. Aðalatriðið er að sjóðirnir geti staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar til lengri tíma litið. Þrátt fyrir slaka ávöxtun sjóðanna á síðasta ári, eru allar líkur á því að þeir muni standa við öll sín lífeyrisloforð í ár. Það sem ég á við er það að íslenska lífeyrissjóðakerfið byggist m.a. upp á sjóðsöfnun en ekki á gegnumstreymi eins og almannatryggingakerfið" segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Ekki áhrif á heildarmyndina.
Slæm útkoma lífeyrissjóðanna á síðasta ári er áhyggjuefni en hefur lítil áhrif á heildarmyndina. Þetta er álit Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða. Raunávöxtun lífeyrissjóðanna fyrir árið 2007 verður líklega nálægt einu prósenti. Til að áunnin réttindi sjóðfélaga haldi sér þarf raunávöxtun sjóðanna hins vegar að vera 3,5 prósent á ári að meðaltali.

Meðalávöxtun síðustu fimm ára betri núna.
Hrafn segir að skoða verði lengri tímabil á rekstri sjóðanna til að átta sig á stöðu þeirra. „Meðalávöxtun síðustu fimm ára er oft notuð sem mælikvarði. Meðalávöxtun síðustu fimm ára er ívið betri en á árunum 2002- 2006 en þá var hún um 8,6 prósent. Nú eru afkomutölur síðasta árs ekki komnar. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur þó tilkynnt að raunávöxtun verði jákvæð um 1% og líkur eru á því að í heild verði raunávöxtun sjóðanna á svipuðu róli að meðaltali."

Sjóðirnir munu standa við lífeyrisloforð sín.
Lífeyrissjóðirnir hafa almennt skilað mjög góðri raunávöxtun frá árinu 2003 eða á bilinu 10,2% til 13,2 að meðaltali. Hrafn segir að lífeyrissjóðirnir séu langtímafjárfestar sem byggja á sjóðsöfnun og mismunandi fjárfestingarárangri milli ára. Aðalatriðið sé að sjóðirnir geti staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar til lengri tíma litið. Þrátt fyrir slaka ávöxtun sjóðanna á síðasta ári, eru allar líkur á því að þeir muni standa við öll sín lífeyrisloforð í ár. Hins vegar eru ekki líkur á því að þeir geti á þessu ári aukið lífeyrisréttindi sín umfram gefin lífeyrisloforð, sem margir þeirra hafa getað gert á umliðnum árum vegna góðrar ávöxtunar.

Traust staða þrátt fyrir slaka ávöxtun í fyrra.
Hrafn vildi að lokum árétta að staða lífeyrissjóðanna sé traust þrátt fyrir slaka ávöxtun í fyrra. “Það sem ég á við er það að íslenska lífeyrissjóðakerfið byggist upp á sjóðsöfnun en ekki á gegnumstreymi eins og almannatryggingakerfið. Nær flestar þjóðir í Evrópu eiga í miklum vanda vegna þess að ekki hefur verið hirt um að safna í sjóði fyrir væntanlegum lífeyrisgreiðslum. Þann vanda eigum við Íslendingar blessunarlega ekki við að etja, þó svo að útkoma lífeyrissjóðanna á síðasta ári sé vissulega áhyggjuefni en hafi þó lítil áhrif á heildarmyndina, þegar upp er staðið."