Slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli til Lífeyrissjóðs sveitarfélaga.

Eftirlaunasjóður slökkviliðsstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli hefur gert samning við Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga (LSS) um inngöngu sjóðfélaga í þann sjóð, en samningar þar um voru undirritaðir hinn 8. mars s.l. Samningurinn er afturvirkur, þannig að iðgjöld áranna 1999 og 2000 hafa verið færð yfir til LSS.

Í samræmi við þennan samning hefur Eftirlaunasjóður slökkviliðsstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli því í raun starfað sem lokaður sjóður frá 1. janúar 1999 og hefur öðlast starfsleyfi sem slíkur, en starfsleyfið var undirritað hinn 2. maí s.l. Síðar mun koma í ljós síðar hvort um fulla sameiningu við LSS verður að ræða í framtíðinni, en áhugi er fyrir að kanna slíkan samruna. Sú ákvörðun var ennfremur tekin að hækka áunnin réttindi sjóðfélaga Eftirlaunasjóðs slökkviliðsstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli, svo og lífeyrisgreiðslur þeirra sjóðfélaga sem nú eru á lífeyri hjá sjóðnum, um 22% frá og með 1. janúar 2001. Þessi ákvörðun var tekin í samræmi við niðurstöður tryggingafræðilegrar úttektar á sjóðnum fyrir árið 1999.