Vegna slæmrar afkomu Lífeyrissjóðs Austurlands hefur stjórn sjóðsins gert tillögur um skerðingu réttinda sjóðfélaga um 5,4%. Á síðustu tveimur árum hefur sjóðurinn þurft að afskrifa rúman milljarð króna, þar af um 800 milljónir vegna eignar í óskráðum hlutabréfum. Hæsta leyfilega hlutfall slíkra eigna er 10% en var um 12% síðustu áramót.
Ávöxtun sjóðsins á síðasta ári, samkvæmt drögum að uppgjöri, var neikvæð um rúm 11% og hefur verið neikvæð síðustu þrjú ár.
Breytingar á makalífeyri og ellilífeyrisaldri snerta ekki þá sem þegar eru farnir að fá greiðslur frá sjóðnum, sem eru rúmlega 1.500 manns í dag. Alls eru sjóðfélagar á sjötta þúsund og heildareignir sjóðsins nema um 13,5 milljörðum króna.
Niðurstaða tryggingafræðilegrar úttektar leiddi í ljós að sjóðinn vantaði verulega upp á að eignir dygðu fyrir skuldbindingum.