Skýrsla un fjölgun öryrkja komin út.

Í nýrri skýrslu um ástæður fyrir fjölgun öryrkja, sem Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, hefur tekið saman fyrir heilbrigðisráðuneytið segir að fjölgun öryrkja megi í meginatriðum rekja til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, hertra krafna um arðsemi á vinnumarkaði, hækkunar örorkulífeyris umfram atvinnuleysisbætur og breytts örorkumatsstaðals.

Öryrkjum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og fleiri ungmenni innan 19 ára aldurs þiggja hér lífeyri af einhverju tagi en annars staðar á Norðurlöndum. Yngstu bótaþegarnir voru þannig um 136% fleiri hér borið saman við fjöldann annars staðar á Norðurlöndum árið 2002. . Á milli 40 og 49 ára virðist hlutfall öryrkja vera svipað hér og annars staðar á Norðurlöndum. Eftir 50 ára aldur snýst dæmið  við og þá verður örorka mun algengari í grannlöndunum en hér. Segir í skýrslunni að þetta sé áhyggjuefni því ekki einungis séu íslenskir öryrkjar að yngjast heldur virðist þessi þróun ekki eiga sér hliðstæðu annars staðar á Norðurlöndum.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að ef útgjöld vegna örorkulífeyris væru þau sömu í framtíðinni og árið 2004 megi ætla að áfallnar skuldbindingar kerfisins nemi um 165 milljörðum króna miðað við 3,5% ávöxtunarkröfu. Augljóst sé, að ef örorkulífeyrisþegar eru að yngjast þá mun það leiða til aukins kostnaðar í framtíðinni. Þannig myndi eins árs hækkun á líftíma meðalbóta leiða til um 6,5 milljarða hækkunar á áföllnum skuldbindingum.

Sennilega sé áhrifamesta aðgerðin til að hvetja öryrkja til að fara út á vinnumarkaðinn, og letja fólk til að sækja um örorkumat, sú að draga úr fjárhagslegum ávinningi af því að vera á örorkubótum. Fyrir fólk á lágum tekjum felist lítil arðsemi í því að fara af örorkubótum í vinnu og í mörgum tilfellum sé hún jafnvel neikvæð. Arðsemina megi auka með ýmsum ráðum.  Skilvirkasta leiðin til úrbóta væri að samræma fjárhagslegan stuðning við barnafólk þannig að hann færi allur fram í gegnum almenna barnabótakerfið en ekki í gegnum Tryggingastofnun, sveitarfélögin og verkalýðsfélögin eins og málum er nú háttað. Þó að þessi breyting sé ef til vill nokkuð róttæk hefði hún í för með sér mun gagnsærra og einfaldara kerfi og fjárhagsstuðningi við hópa eins og öryrkja og atvinnulausa yrði ekki blandað saman við fjárhagsstuðning við barnafólk.

Sjá hér skýrslu Tryggva um fjölgun öryrkja.