Skýrsla komin út um stefnumótun í máefnum aldraðra til 2015.

Stýrihópur um stefnumótun í málefnum aldraðra, sem skipaður var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vorið 2000, hefur lagt fram tillögur sínar. Hópnum var falið það hlutverk að móta stefnu í málefnum aldraðra til næstu fimmtán ára og skyldi hann fyrst og fremst byggja starf sitt á fyrirliggjandi upplýsingum um málaflokkinn.

Stýrihópnum er ljóst að erfitt er að sjá fyrir hvernig ytri aðstæður muni breytast á komandi árum. Hann leggur því áherslu á að hvernig sem það muni gerast verði jafnan fyrst og fremst hugsað um hina mannlegu þætti, svo sem jafnrétti, heilsu og lífsgleði. Er það í samræmi við stefnumörkun Sameinuðu þjóðanna í málefnum aldraðra. Formaður stýrihópsins var Jón Helgason, fyrrverandi ráðherra.

 

AÐGERÐAÁÆTLUN UM FRAMKVÆMD TILLAGNA STÝRIHÓPSINS ER  Á ÞESSA LEIÐ:

 

a)   Fylgt verði eftir við fjárlagagerð ársins 2004 samkomulagi aldraða og ríkisstjórnarinnar um bætta afkomu aldraðra með lágar tekjur.

 

b)    Fylgt verði eftir við fjárlagagerð ársins 2004 næsta áfanga vegna aukins fjármagns Framkvæmdasjóðs aldraðra til byggingar hjúkrunarrýma.

 

c)    Skrifstofu öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu verði komið á fót á næstu mánuðum.

 

d)    Lokið verði gerð nýrra reglna um Framkvæmdasjóð aldraðra fyrir árslok 2003.

 

e)    Þegar verði hafist handa við samræmingu félagslegrar heimaþjónustu við aldraða og heimahjúkrunar undir sameiginlegri stjórn þar sem einn aðili er ábyrgur fyrir framkvæmd og fjárhag, í samræmi við samkomulag samráðshóps stjórnvalda og eldri borgara frá því í nóvember 2002.

 

f)    Sem fyrst liggi fyrir mat á þörf fyrir fjölgun dagvistarrýma og rýma fyrir hvíldarinnlagnir og áætlun um verulega fjölgun þeirra á næstu tveimur árum.

 

g)    Hafnar verði viðræður um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um málefni aldraðra. Í framhaldi af því verði lokið gerð frumvarpa til breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, um húsnæðismál, nr. 44/1998, og á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með hliðsjón af tillögum stýrihópsins.

 

h)    Komið verði á fót þverfaglegum vettvangi rannsókna á sviði öldrunarfræða og honum fundinn rekstrargrundvöllur á árinu 2003.

 

i)    Unnið verði yfirlit um samstarf við þá mörgu aðila sem nauðsynlegt er að leita til við framgang hagsmunamála aldraðra. Þetta verði gert í samráði við Öldrunarráð Íslands.

 

j)    Unnið verði stöðumat á málefnum aldraðra svo unnt sé að fylgjast með því hvernig Íslendingar standa við skuldbindingar frá Berlínarfundinum 2002.