Hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2006 jókst um tæplega 23% og nam tæplega 1500 milljörðum króna samanborið við um 1.219 milljarða í árslok 2005. Samsvarar þetta um 14,9% raunaukningu miðað við vísitölu neysluverðs. Hrein raunávöxtun miðað við neysluverðsvísitölu var 10,23% á árinu. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ára var 8,4% og meðaltal sl. 10 ára var 6,7%.
Á árinu fækkaði lífeyrissjóðum um 5 en þeir voru 41 í árslok 2006. Af framangreindum 41 lífeyrissjóðum taka 9 ekki lengur við iðgjöldum og eru því fullstarfandi sjóðir 32.
Iðgjöld lífeyrissjóða hækkuðu á milli ára úr 87 milljörðum króna á árinu 2005 í 96 milljarða króna á árinu 2006. Gjaldfærður lífeyrir var tæplega 35 milljarðar árið 2005 en var 40 milljarðar árið 2006.
Aukinn séreignasparnaður
Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2006 jókst um 50 milljarða , eða um 34% og nam um 198 milljörðum króna samanborið við rúmlega 146 milljörðum í árslok 2005. Séreignarsparnaður í heild nam um 13% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2006. Langstærstur hluti uppsafnaðs séreignarsparnaðar í árslok 2006 var í vörslu lífeyrissjóða sem voru hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 eða 117,4 ma.kr. Í kjölfar þessara sjóða koma vörsluaðilar aðrir en lífeyrissjóðir, þ.e. bankar, sparisjóðir, verðbréfasjóðir og líftryggingafélög, sem voru með 55,7 ma.kr. í sinni vörslu í árslok 2006 og að lokum aðrir lífeyrissjóðir með 24,5 ma.kr. í vörslu. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 22 ma.kr. í 25,7 ma.kr. á árinu 2006.
Fjármálaeftirlitið hefur nú sett á heimasíðu sína, skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2006. Á heimasíðunni er jafnframt að finna excel skjal sem inniheldur talnaefni skýrslunnar.
Hér má nálgast skýrslu FME um lífeyrissjóðina