Í júlí sl. birti Fjármálaeftirlitið (FME) samantekt á ársreikningum íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2014. Þar kemur meðal annars fram að lífeyriskerfið hefur haldið áfram að stækka og stendur almennt traustum fótum.
Eignir alls lífeyriskerfisins námu 3.086 milljarðar kr. í árslok 2014 eða 155% af vergri landsframleiðslu. Þar af voru eignir samtryggingadeilda 2.644 ma.kr. og séreignadeilda í vörslu lífeyrissjóða 281 ma.kr. Séreignasparnaður í vörslu annarra aðila en lífeyrissjóða nam 161 ma.kr.
Alls var séreignasparnaður 442 ma.kr. í árslok 2014 og hafði hækkað um 7,4% á milli ára. Um 36% af séreignastarnaði var í vörslu annarra aðila en lífeyrissjóða og stóð það hlutfall í stað á milli ára.
Hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna var 7,5% árið 2014 en 5,2% hjá séreignadeildum þeirra. Meðal raunávöxtun sl. 20 ára var 4,0%, sem er yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóðanna.
Heildar tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda batnaði á liðnu ári m.a. vegna hárrar raunávöxtunar. Sjóðir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga voru með neikvæða stöðu um 623 milljarða króna í árslok 2014. Þessir sjóðir eru aðeins að hluta byggðir upp með sjóðsöfnun og hefur hallinn því byggst upp á löngum tíma. Slíkir eftirlaunasjóðir með ábyrgð launagreiðanda eru lokaðir þar sem nýjir starfsmenn greiða í sjóði sem byggja á sjóðsöfnun.