Á mjög fjölmennu málþingi um starfsendurhæfingu, sem haldið var 13. nóvember s.l. kom fram í erindi Hrafns Magnússonar, fram- kvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, að starfsendurhæfing væri mjög mikilvægur þáttur í velferð einstaklinga sem nauðsynlegt væri að efla að styrk og fjölbreytni á komandi árum.
Þeir aðilar sem stóðu að málþingunu voru Landssamtök lífeyrissjóða, Tryggingastofnun ríkisins, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samstarfsráð um endurhæfingu og Vinnumálastofnunin. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri LL, flutti erindi um þýðingu starfsendurhæfingar fyrir lífeyrissjóði. Í erindi Hrafns gat hann m.a. þess að margir héldu að hlutverk lífeyrissjóðanna væri nær eingöngu að greiða sjóðfélögum sínum viðunandi ævilangan ellilífeyri að loknum launuðum störfum. Það væri mikill misskilningur. Allt frá stofnun lífeyrissjóðanna hafa greiðslur til þeirra sjóðfélaga sem misst hafa starfsorku sína skipt miklu máli, enda væru sjóðirnir hagstæðasta, skilvirkasta og ódýrasta samtrygging launþega vegna ýmissa áfalla svo sem vegna starfsorkutaps. Það væri ekki spurt um heilsufar, aldur, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð eða kyn þegar viðkomandi gerðist sjóðfélagi í lífeyrissjóði, eins og tíðkast þegar keyptar væru tryggingar vegna slysa- og sjúkdóma hjá tryggingafélögunum. Lokaorð í erindi Hrafns Magnússonar voru þessi: "Á umliðnum árum hefur okkur Íslendingum tekist að byggja upp gott velferðarkerfi, þó alltaf megi gera betur og mönnum finnst oft ekki miða nægilega vel og fljótt í rétta átt gagnvart ýmsum þjóðfélagshópum, s.s. öryrkjum og öldruðum. Hluti af velferðarkerfinu eru auðvita lífeyrissjóðirnir, en uppbygging þeirra hér á landi er í fremstu röð meðal vestrænna þjóða, eins og kunnugt er. Starfsendurhæfng sem hér er til umræðu á þessu málþingi er mjög mikilvægur þáttur í velferðarkerfinu og brýn nauðsyn er að gefa öllum sem missa starfsorku sína vegna sjúkdóma eða slysa kost á skilvirkum endurhæfingarúrræðum. Þeim mun fljótar sem gripið er til starfsendurhæfingar þeim mun betra fyrir alla. Þar þarf ekki síst að leita samstarfs við sjúkrasjóði verkalýðsfélaga, því þangað leita launþegar oftast í byrjun langvarandi veikinda og fjarveru frá vinnumarkaði. Skilvirk starfsendurhæfing lækkar kostnað og fjárútlát ríkissjóðs og lífeyrissjóða þegar til lengri tíma er litið en mest er þó um vert að með því að aðstoða einstaklinginn við að takast á við launuð störf á vinnumarkaði eykst sjálfsvirðing hans og lífshamingja. Að því skulum við í sameiningu stefna að á næstu mánuðum og misserum að vinna að árangursríkum úrræðum í starfsendurhæfingarmálum og að móta þá heildarstefnu sem þarf til þess að svo megi verða. Það er ósk mín að þetta málþing verði fyrst og fremst minnst fyrir það, að með því hófst formlegt samstarf ýmissa hagsmunaaðila við að koma á samræmdu, skilvirku og skipulögðu starfsendurhæfingaúræðum fyrir alla þá sem þess þurfa."