Skerðingarákvæði almannatrygginga alltof mikil að mati Landssamtaka lífeyrissjóða.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa margsinnis bent á það óréttlæti að auknar bætur frá lífeyrissjóðunum og greiðslur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skerða mjög harkalega bætur almannnatrygginga. Þannig skila auknar bætur frá lífeyrissjóðunum sér í meiri skerðingum á bótum almannatrygginga.

Sjá meðfylgjandi dæmi. Um er að ræða einstakling, sem býr einn og nýtur ellilífeyris hjá almannatryggingum og lífeyrissjóði. Allar tölur eru reiknaðar fyrir staðgreiðslu skatta og um er að ræða mánaðarlegar greiðslur:

 

Bætur frá

lífeyrissjóði

Bætur frá

almannatryggingum

Samtals bætur

fyrir skatta

Mismunur í kr.

fyrir skatta

0 kr.

123.623 kr.

123.623 kr.

 

50.000 kr.

  93.471 kr.

143.471 kr.

  19.848 kr.

60.000 kr.

  87.441 kr.

147.441 kr.

    3.970  kr.

70.000 kr.

  81.411 kr.

151.411 kr.

   3.970 kr.

80.000 kr.

  75.381 kr.

155.381 kr.

   3.970 kr.

90.000 kr.

  69.351 kr.

159.351 kr.

   3.970 kr.

100.000 kr.

  63.321 kr.

163.321 kr.

   3.970 kr.

  

Ef viðkomandi bótaþegi er ekki með nein ellilífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði, þá nema hámarksbætur almannatrygginga 123.623 kr. á mánuði.  Ef bótaþeginn hefur hins vegar áunnið sér 50.000 kr greiðslur á mánuði  frá lífeyrissjóði, lækka bætur almannatrygginga hvorki meira né minna en  um 30.152 kr. Af 50.000 kr. bótum frá lífeyrissjóðnum skila sér því aðeins 19.848 kr til bótaþegans og á þá meira að segja eftir að skattleggja þá fjárhæð. Ef greiðslur bótaþegans aukast hjá lífeyrissjóðnum t.d. um 10.000 kr. á mánuði, hækka heildargreiðslurnar aðeins um 3.970 kr. fyrir hverjar 10.000 kr. í réttindaávinnslu, eingöngu vegna skerðingar á bótum frá almannatryggingum. Ekki er tekið tillit til þess að eftir er að greiða skatta af þessum bótum.  Tekið skal fram að sömu skerðingarákvæði gilda, ef um viðbótarlífeyrissparnað er að ræða. Hér er því um að ræða mikið ranglæti sem löggjafinn þarf að leiðrétta hið fyrsta.   

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á reglum lífeyrissjóðanna hvað snertir skerðingu bóta vegna annarra tekna. Þá ber fyrst að geta þess að ellilífeyrir og makalífeyrir er greiddur án nokkurs tillits til annarra tekna bótaþegans eða maka hans.

Um örorkulífeyririnn gilda aðrar reglur. Samkvæmt lögum nr. 129/1997 ber lífeyrissjóðum einvörðungu að greiða örorkulífeyri, ef sjóðfélagar verða fyrir teljuskerðingu af völdum orkutapsins. Lífeyrissjóðum er því algjörlega óheimilt samkvæmt lögum að greiða sjóðfélaga örorkulífeyri, ef hann verður ekki fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.  Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar.

Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu almanaksárin fyrir orkutapið og skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs. 

Við mat á tekjum örorkulífeyrisþegans hjá lífeyrissjóði er ekki tekið tillit til tekna makans, ekki er tekið tillit til fjármagnstekna og ekki er tekið inn tekjurnar greiðslur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar eða bætur vegna frjálsra slysatrygginga, sem sjóðfélaginn hefur  tekið og alls ekki er tekið með makalífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum eða frá almannatryggingum. 

Ljóst er að við mat á tekjuskerðingu eru reglur lífeyrissjóðanna langtum rýmri en hjá almannatryggingum. Við mat á fyrirkomulag tekjutengingar bóta almannatrygginga er  vissulega hægt að hafa hliðsjón af framangreindum reglum lífeyrissjóðanna, þegar meta skal skerðingarákvæði almannatrygginga, sem eins og áður segir, eru alltof harkaleg og koma mjög illa niður á lífeyrisþegum sjóðanna og rétthöfum viðbótarlífeyrissparnaðarins.