Skattfrjáls iðgjöld munu standa undir lífeyri allt að 100% af launum.

Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem tryggir að iðgjöld að hámarki 20% af iðgjaldsstofni verði frádráttarbær. Takmörk verða sett á árlega frádráttarbært iðgjald og er lagt til að það verði 1.500.000 kr. eða sem svarar til 20% af 7.500.000 kr. árstekjum. Þá er gert ráð fyrir því að öll framlög, þ.á.m. framlög atvinnurekenda, til öflunar lífeyrisréttinda teljist til skattskyldra tekna hjá launþeganum. Á móti fái hann rétt til frádráttar á iðgjaldi og framlagi til öflunar lífeyrisréttinda, hvort sem það hefur verið greitt af honum eða launagreiðanda hans með ofangreindum takmörkunum.

Lagt er til í frumvarpinu að tekin verði upp skýr ákvæði um heimildir til að draga iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda frá skattskyldum tekjum. Er jafnframt lagt til að fyrirkomulagið verði með þeim hætti að ekki skipti máli hvor greiðir iðgjaldið, launagreiðandi eða launþegi, þannig að réttur til frádráttar frá skattskyldum tekjum verði óháður því hvernig samið er um að haga launagreiðslum. Þessu er náð með því að gera ráð fyrir því í samræmi við meginreglu tekjuskattslaganna að öll framlög til öflunar lífeyrisréttinda teljist til skattskyldra tekna þess sem lífeyrisréttinn fær. Á móti fái hann rétt til frádráttar á iðgjaldi og framlagi til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hvort sem það hefur verið greitt af honum eða launagreiðanda hans. Gert er ráð fyrir að þetta eigi eins við um þá sem starfa við eigin atvinnurekstur. Með þessu skapast jafnræði með tillti til skattalegra réttinda. Í ákvæðinu er gerð tillaga um að frádráttarbær iðgjöld verði innan tiltekinna marka sem eru verulega hærri en þær frádráttarheimildir sem nú er að finna í lögum. Möguleiki verður að víkja frá hámarkinu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna styttri starfsaldurs en almennt gerist og hærri iðgjaldagreiðslum af þeim sökum. Í þeim tilvikum er tryggt að viðkomandi launþegi geti þó ákveðið sjálfur að afla sér aukinna lífeyrisréttinda, með séreignarsparnaði, sem yrði frádráttarbært frá skattskyldum tekjum. Auk þess getur hann dregið frá skattskyldum tekjum iðgjöld í lífeyrissjóði eins og þau hafa verið ákveðin í reglugerð eða kjarasamningi viðkomandi launþega. Með kjarasamningi í þessu sambandi er átt við almennan kjarasamning milli stéttarfélags launþegans og vinnuveitenda en ekki einstaka ráðningarsamninga launþega. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er við það miðað að iðgjöld til lífeyrissjóða nægi til að lífeyrir 40 ára iðgjaldagreiðslna verði 56% meðalatvinnutekna yfir starfsævina. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að skattfrelsi verði miðað við að skattfrjáls iðgjöld geti á sömu forsendum staðið undir lífeyri sem verði 100% af atvinnutekjunum eða nærri tvöföldu lágmarksiðgjaldi. Auk þess er gert ráð fyrir að þessu marki geti menn náð á styttri tíma en 40 árum. Leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu að iðgjöld allt að 20% af iðgjaldsstofni verði frádráttarbær. Á grundvelli sömu sjónarmiða um að skattfrelsið helgist af framfærslu á efri árum er jafnframt lagt til að takmörk verði sett á árlega frádráttarbært iðgjald og er lagt til að það verði 1.500.000 kr. sem svarar til 20% af 7.500.000 kr. árstekjum.