Þúsundir Dana gætu þurft að hætta eða að draga úr lífeyrissparnaði ef áform stjórnvalda um breytingu á skattalögum ná fram að ganga. Las Olsen hagfræðingur hjá Danske Bank segir þessi áform eingöngu hafa áhrif á efnameiri Dani sem nú þegar ráða yfir traustum lífeyrissparnaði og að þeir sem leggja mánaðarlega háar upphæðir í lífeyrissparnað verði einnig fyrir höggi þar sem lagður verði viðbótarskattur á lífeyrissjóðsgreiðslur þeirra. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að jöfnunarskattur verði lagður á lífeyrisgreiðslur sem eru umfram 284.000 danskar krónur (5,5 millj.ísk) á ári fram til ársins 2043 til að mæta áformum um lægri tekjuskatti sem stjórnin er nú að kynna.
Að mati Las Olsen felur þetta í sér að dregið er úr hvata til aukins lífeyrissparnaðar hjá þeim sem hefja töku eftirlauna fyrir árið 2043. “Þetta gerir sparnað síður eftirsóknarverðan hjá stórum hópi fólks” segir Olsen. “Í fyrsta lagi dregur úr skattahagræði þegar hæsta skattþrepið er lækkað og þar að auki verða þau fyrir jöfnunarskattinum ef taka lífeyris hefst fyrir 2043,” heldur hann áfram.
Hæsta jaðarhlutfall tekjuskatts er lækkað úr 63% í 55,6% árið 2011 í tilraun til að skapa fjárhagslegan hvata. Jöfnunarskatturinn er greinilega settur á til að tryggja að skattur á lífeyrissparnað lækki ekki á meðan nýr afsláttur á hærri skatta er kynntur til sögunnar.Hærra skattþrep á lífeyri verður 7,5% árið 2010 en lækkar eftir það árlega um fjórðung úr prósenti þar til það hverfur að lokum árið 2043.
“Þetta er óheppilegt og mjög flókið fyrir skattkerfið” segir Olsen. Samtök danskra tryggingafélaga (DIA) hafa einnig varað við því að áform stjórnvalda um sjálfstæðan 8% skatt á árlegan sparnað muni grafa undan lífeyriskerfinu. DIA telur að þessi breyting muni hafa í för með sér að fleir flýti töku lífeyris vegna þess að eftir ákveðinn aldur rýrni virði lífeyrissparnað þannig að 100 danskar krónur verða einungis 92ja króna virði.
Per Bremer Rasmussen, framkvæmdastjóri DIA varar við því að boðaður skattur á lífeyri sé bein ógnun við lögboðinn atvinnutengdan lífeyri sem sé grunnur þess lífeyriskerfis sem byggt hefur verið upp í Danmörku síðustu 20-30 árin. Hann bendir á að í lífeyrisáætlunum hvers einasta Dana, sem nálgast 284.000 króna mörkin, þurfi að taka afstöðu til þess hvort hætta eigi lífeyrissparnaði. DIA telur að með boðaðri breytingu sé verið að búa til sérstakt skattkerfi sem hafi aðeins áhrif á eftirlaunaþega en það skapi óvissu um lífeyriskerfið. Samtökin telja að ef ríkisstjórnin vilji leggja á tímabundinn skatt eigi hann að lækka og falla niður á mun skemmri tíma, til dæmis fjórum árum, frekar en að lækka um fjórðung úr prósenti á ári í 32 ár.
Rasmussen segir að skatturinn þýði að menn geti ekki sparað til efri áranna án þess að þurfa sífellt að fylgjast með því hve nálægt þeir eru komin leyfilegum mörkum. Hann telur að fólk muni hætta að spara til efri áranna, fara fyrr á eftirlaun eða fjárfesta sparnaðinn í frístundahúsum til að komast hjá því að greiða skattinn. Hann bætir við að á sama tíma og þessi áform skili litlu í fjárhirslur ríkisins, vegna þess að fólk mun breyta hegðun sinni, muni þau leiða til lakara lífeyriskerfis.